Að sjálfsögðu er ég síonisti

frettinIngibjörg Gísladóttir, Pistlar1 Comment

Ingibjörg Gísladóttir skrifar:

Mannkynssagan geymir sögu samfelldra ofsókna gegn gyðingum og enn er reynt að útrýma þeim. Hvenær er komið nóg?

Gyðingahatur hefur verið mjög áberandi síðustu árin, bæði á Íslandi sem og annars staðar, og ýmsu til tjaldað. Meðal annars hefur heyrst að evrópskir gyðingar séu afkomendur Khazara sem hafi útrýmt hinum eiginlegu gyðingum og tekið yfir arfleifð þeirra. En ættu þá ekki að vera tyrknesk tökuorð í jiddískunni? Áróðursritið fræga, The Protocols of the Elders of Zion, sem Philip Graves sýndi fram á með grein í The Times 1921 að væri fölsun, er nú aftur kynnt sem sönnun fyrir því að gyðingar stefni á heimsyfirráð og síonismi er lagður að jöfnu við nazismann og aðrar alræðisstefnur og sögð rasísk stefna að auki.

En hvað er síonismi? Jú, síonismi er ein af grunnstoðum gyðingdómsins, tákn hins harðbýla lands er Jahve úthlutaði sinni útvöldu þjóð fyrir meira en 3.000 árum. Aðrir hornsteinar gyðingdómsins eru trúin á einn guð og lög um hegðun manna í samfélaginu (byggð á Móses og boðorðunum tíu).

Hinir fornu gyðingar fengu það hlutverk að vera siðferðisviti mannkyns og líkt og Prómeþeifi var refsað grimmilega fyrir að færa mannkyninu eldinn þá hefur saga gyðinga verið samfelld barátta gegn öflum er vilja útrýma þeim.

Í sálmi 83 í Biblíunni má sjá nöfn þjóða er vildu uppræta gyðinga; í Esterarbók leggur ráðgjafi Xerxesar I (486-465 f. Kr.) á ráðin um útrýmingu þeirra og Rómverjar voru ekki sáttir við þessa litlu þjóð sem hafnaði guðum þeirra. Líklega hefur þó kaþólska miðaldakirkjan gengið lengst fram í gyðingahatrinu og lugu valdamenn kirkjunnar því að gyðingar fórnuðu kristnum og neyttu blóðs þeirra (sem er þó stranglega bannað skv. 3. Mósebók, 7:26) og ásakanir um að gyðingar væru samábyrgir fyrir dauða Krists voru básúnaðar öldum saman, eins og við könnumst við úr Passíusálmunum. Innblásnir af því hatri drápu Krossfararnir þá gyðinga er þeir náðu til í Jerúsalem. Þar skipti engu þótt Frelsarinn og allir lærisveinar hans væru gyðingar og að í Fjallræðunni, 5:17-19 segi að hann hafi ekki komið „til að afnema lögmálið eða spámennina".

Gyðingahatri Marteins Lúters er einnig við brugðið en með Upplýsingunni dró úr ofsóknum kirkjunnar manna þó að fordómarnir lifðu áfram s.s. hjá Voltaire.

Saga gyðinga er saga samfelldra ofsókna. Þeir voru reknir frá Englandi 1290, frá Spáni 1492 og 1882 flýði fyrsti hópurinn pogrom í Rússlandi til Landsins helga og fylgdu margir hópar í kjölfarið og settust þar að í nær mannlausu landi með leyfi Ottómana. Með nasismanum hófst mjög sérstakt skeið gyðingaofsókna og reyndust íbúar flestra Evrópulanda fúsir til að aðstoða við hreinsanirnar, ekki þó Finnar eða Danir sem smygluðu gyðingum sínum til Svíþjóðar. Í Babi Yar í Úkraínu var ekki einu sinni reynt að fela drápin heldur voru a.m.k. 33 þúsundir skotnar ofan í gjá nærri Kiev 1941. Einnig var Stalín mjög virkur í gyðingaofsóknunum.

Pogrom voru svo sem líka þekkt í ríki Ottómana. Nefna má ránin, nauðganirnar og morðin í Safed 1834 en eftir að kalífaveldið liðaðist í sundur og gyðingar hættu að sætta sig við réttleysi, sérsköttun og niðurlægingu, samanber Kóranvers 9:29, þá jókst þörfin á að halda þeim niðri. í Hebron var reynt að útrýma þeim 1929, í Baghdad 1941 var svokallað Farhud pogrom (600 drepnir) en eftir atburðina í Líbíu 1945, þar sem lýsingarnar minna á ódæðisverk Hamas hinn 7/10, þá varð gyðingum ljóst að þeir þyrftu að koma sér á brott frá löndum múslima og flýðu yfir 850.000 þeirra. Eru sum lönd þeirra nú „Judenfrei", eins og Hitler stefndi að.

Í nútímanu hefur vók-vinstrið sameinast íslamistum í baráttunni sem sést vel af fréttaflutningi RÚV sem sýnir okkur mjög skrumskælda mynd af veruleikanum. Meðal annars hefur RÚV talað fyrir rétti Gasabúa til að fara „heim" og fá eigið ríki en þeir eru í Palestínu nú þegar og a.m.k. 5 sinnum hafa Palestínumenn hafnað tilboði um eigið ríki. Samkvæmt Hamas Covenant frá 1988 þá snýst baráttan ekki um land, heldur um að þóknast Allah og minna múslimar sig á það 5 sinnum á dag að Allah sé gyðingum reiður og að kristnir séu á villigötum (bænin Al-Fatiha).

Það var trúlega 2008 sem ég heyrði fyrst á RÚV um yfirstandandi þjóðarmorð Ísraelshers á Palestínumönnum en síðan þá hefur þeim fjölgað um meira en milljón, skv. tölum UNRWA. Ásakanir um aðskilnaðarstefnu hafa einnig heyrst, m.a. frá Amnesty, en eftir innrásina 7.10 skilja trúlega flestir þörfina á henni.

Það var KGB sem kom Arafat til valda, eða svo sagði Mihai Pacepa í viðtali við Wall Street Journal 2003, og það voru Sovétmenn sem fengu Allsherjarþing SÞ til að samþykkja 1975 að síonismi væri afbrigði rasisma - hefnd fyrir að hafna kommúnismanum.

Heimurinn yrði mun betri ef sanntrúuðum gyðingum fjölgaði (mönnum eins og Sórosi mætti hins vegar fækka). Jafnvel þegar gyðingar bjuggu í gettóum Evrópu var lítið um glæpi, drykkjuskap og vegalaus börn meðal þeirra. Menn studdu hver annan og höfðu menntun og fjölskyldulíf í hávegum.

Ég er sem sagt síonisti. Ofsóttasti hópur veraldarsögunnar á það skilið að eiga sér skjól. Aldrei aftur 7.10!

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13.8.2024

One Comment on “Að sjálfsögðu er ég síonisti”

  1. Góð grein. Hjartanlega sammála, að ofsóknum á Gyðinga verður að hætta strax.

Skildu eftir skilaboð