Geir Ágústsson skrifar:
Þetta með samgöngur á höfuðborgarsvæðinu virðist ekki vera einfalt mál. Ekki einfalt því einfaldar lausnir fá ekki að komast að. Stífluð gatnamót? Gerið þau mislæg. Töf á ljósum? Samstillið þau. Erfitt að beygja út af vegi? Setjið frárein. Vandamál fyrir gangandi og hjólandi? Byggið brú eða göng. Enginn í strætó? Minnkið vagna og fjölgið þeim fyrir sama verð og að láta risastórar rútur keyra tómar á lágri tíðni. Fáir að hjóla? Byggið ódýra, upplýsta og upphitaða hjólastíga sem eru ekki ofan í umferðinni.
Nei, þess í stað er alltaf talað um dýrustu mögulegu lausnir sem enginn skilur, enginn mun nýta sér og enginn hefur efni á.
Að ríkisvaldið tali núna um að eitthvað sé fullfjármagnað er svo brandari út af fyrir sig. Ríkisvaldið hefur ekki efni á eigin verkefnum, hvað þá verkefnum annarra. Það er bara fullfjármagnað í þeim skilningi að það er ennþá heimild á kreditkortinu, í bili.
En slíkt er eðli ríkisstjórnarsamstarfsins. Allir ráðherrar hennar mega ferðast um og lofa allskonar fyrir alla til að fjármagna eigin kosningabaráttu. Þegar kreditkortinu er svo hafnað - af bankanum eða þinginu eða hverju sem er - þá er það öðrum að kenna.
Núna má bæta orðinu „fullfjármagnað“ á listann yfir orð sem hafa skipt algjörlega um skilgreiningu sem á ekkert skylt við fyrri skilgreiningu. Þar eru nú þegar orð eins og „bóluefni“, „lýðheilsa“, „friður“, „jafnrétti“ og „umhverfisvernd“, svo eitthvað sé nefnt.
Kannski gerir það ekkert til að ráðherrar skrifi undir innistæðulausar ávísanir. Við erum kannski orðin vön því. Af því hlýst ekki meiri skaði en af innistæðulausum ávísunum annarra innan hins opinbera (en heldur ekki minni).
En látum ekki orðaleikina plata okkur. Sá sem þarf að fjármagna daglega neyslu með lántökum hefur ekki „fullfjármagnað“ neitt þótt hann hafi slegið á nýtt lán fyrir framkvæmdum, og þurfa svo að slá á lán til að greiða afborganirnar.
One Comment on “Þegar orð missa merkingu sína algjörlega”
Góðar greinar hjá þér Geir Ágústson.
Fara inn á þessa slóð þá sést línuritið frá Seðlabankanum.*
Ekki er verra að búa til stríð, þá verður fólkið hrætt og… – jonasg-egi.blog.is
https://jonasg-egi.blog.is/blog/jonasg-egi/entry/2285723/