Geir Ágústsson skrifar:
Þá hefur stofnandi fjésbókarinnar loksins játað að hann ritskoðaði efni á veirutímum að ósk bandarískra yfirvalda, þaggaðir niður í fréttum sem hefðu mögulega geta haft áhrif á kosningaúrslit og lokaði á notendur ef þeir dirfðust að segja sannleikann. Hann bætir meira að segja við að hann sjái á eftir þessu öllu.
En holur er hljómurinn í slíkri iðrun. Í dag er fjésbókin ennþá að ritskoða, þagga niður í notendum, kæfa fréttir og ota að okkur einhverju allt öðru en algrímin frægu ættu að vita að við viljum sjá í raun.
Það er einfaldlega engin leið að nota samfélagsmiðla til að fá nálægt því einhverja rétta mynd af stöðu mála. Þeir eru áróðurstæki og gott að hafa það í huga. Ágætir fyrir spjall og skoðanaskipti, vonlausir til að greina rétt frá röngu.
Nú hafa menn auðvitað verið að benda á þetta og vara við í mörg ár, og sérstaklega á veirutímum. Er sonur Joe Biden gjörspilltur eiturlyfjaneytandi sem skipuleggur leynifundi með úkraínskum milljónamæringum og pabba sínum? Samsæriskenning! Rússafrétt! Eru sprauturnar að ráðast á hjartað og önnur líffæri fólks? Falsfrétt! Lygar! Listinn er auðvitað endalaus og lengist dag frá degi en fréttatímarnir taka hressilega undir og samfélagsmiðlarnir auðvitað líka.
Á hjólareiðaferðum mínum er ég nýbyrjaður að hlusta á bók, Is That True or Did You Hear It on the BBC?: Disinformation and the BBC. Hún byrjar mjög vel með nokkrum áþreifalegum en um leið sláandi dæmum um fréttaflutning sem hljómar trúverðugur en er ekki réttur - blanda af staðreyndum og einhverju sem gæti alveg hafa gerst en piprað með lygum sem eiga að hafa áhrif á neytanda fréttanna og fellur að markmiðum yfirvalda og voldugra aðila með aðgang að þeim.
Það er óhætt að spá því að sú bók muni renna hratt niður
Ritskoðunin er mögulega umfangsmikil en hún hefur hingað til ekki náð til bókaskrifa, og það er gott. Rithöfundar með umdeildar skoðanir, eða skoðanir sem venjulegt fólk sér ekkert að en yfirvöld láta fara mjög í taugarnar á sér, virðast geta fengið efni sitt birt og í sæmilega dreifingu (Audible-appið er jafnvel duglegt að stinga upp á bókum sem mér gæti þótt áhugaverðar í raun). Hlaðvörpin hafa heldur ekki þurft að mæta ritskoðun, a.m.k. ekki í bili. Það er því um að gera og verðlauna þá sem leggja á sig mikla vinnu til að brjótast í gegnum þagnarmúrinn með eitthvað sem er raunverulega verðmætt að vita og skilja.
Ólíkt jarminu í þessum hefðbundnu fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Þar heldur ritskoðunin áfram, sama hvað forstjórar segja til að losna undan sviðsljósi rannsóknarnefnda.