Geir Ágústsson skrifar:
Ég skal vera alveg hreinskilinn.
Ég er enginn sérstakur áhugamaður um ritskoðun. Hún er mér alls ekki ofarlega í huga. Sé henni beitt þá er ég ekkert endilega að fara klappa fyrir því eða leggja á mig að réttlæta hana.
Ef innflytjendur og afkomendur þeirra eru búnir að brytja niður litlar stúlkur og nauðga þeim svo árum skiptir án afskipta yfirvalda, og fólk æðir brjálað út á göturnar með skilti og hellir sér yfir samfélagsmiðla, þá finnst mér ekkert endilega að það eigi að fleygja því fólki í fangelsi og þagga niður í því með handtökum og sektum.
Nema auðvitað að yfirvöld séu í mjög erfiðri stöðu. Þá þarf að handtaka venjulegt fólk sem er orðið þreytt á hnífastungum í börn þess.
Það er einhvern veginn svona sem formaður Samfylkingarinnar tjáir sig þótt spyrill reyni af mikilli varfærni að reyna fá eitthvað annað en meginstraumsþvæluna og -æluna út úr honum.
Formaðurinn er „enginn sérstakur áhugamaður um að reyna halda aftur af hvernig fólk tjáir sig“. Er til snyrtilegri leið til að segja að ritskoðun sé sjálfsagt vopn í vopnabúri yfirvalda, án þess að segja það? Varla.
Ég held að kjósendur eigi vandasamt verk fyrir höndum. Þeir þurfa að skilja á milli þess sem er sagt og þess sem er í raun sagt. Þeir þurfa að finna stjórnmálamenn sem hata ekki venjulegt fólk með venjulegan lífsstíl. Þeir þurfa að velja stjórnmálamenn sem hlusta á kjósendur frekar en útlenska embættismenn. Þegar prófkjör og uppstillinganefndir stjórnmálaflokkanna hafa síað út alla frambærilegustu frambjóðendurna þarf að skoða þá sem eftir eru og athuga hvort einhver þar sé að bjóða fram krafta sína í þágu almennings eða bara að leita að þægilegri innivinnu.
Líklega gildir það um flesta stjórnmálamenn að þeir séu engir sérstakir áhugamenn um að halda aftur af hvernig fólk tjáir sig. En það er vandamál. Best væri að áhuginn lægi sérstaklega í að varðveita málfrelsið - réttinn til að segja eitthvað óvinsælt, umdeilt, ástríðufullt og einlægt. En hvar er sá stjórnmálamaður?
(Vil bæta því við í lokin að viðtalið við formann Samfylkingar í Spjallinu með Frostavar gott og upplýsandi og jafnvel gefandi og uppbyggilegt. Kíkið á það!)