Alvarlegt sinnuleysi stjórnvalda leiðir til skelfilegra atburða

frettinInnlendarLeave a Comment

Fréttatilkynning:

Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga á Íslandi, vill koma á framfæri alvarlegum áhyggjum vegna tveggja nýlegra atvika þar sem einstaklingar, sem hafa lokið afplánun í fangelsi og metnir sem hættulegir með mikla þjónustuþörf, tengjast alvarlegum atvikum undanfarið. Í fyrra tilfellinu er einstaklingur grunaður um nauðgun og líkamsárás skömmu eftir að hafa losnað úr afplánun, en í seinna tilfellinu er annar einstaklingur grunaður um manndráp. Hættan af þessum mönnum var þekkt og Afstaða búin að vara ítrekað við hvað myndi hugsanlega gerast og því hefði verið hægt að koma í veg fyrir að svona færi ef gripið hefði verið til viðeigandi aðgerða.

Þrátt fyrir ítrekaðar viðvaranir frá Afstöðu og sérfræðingum hefur verið skortur á úrræðum fyrir þá einstaklinga sem losna úr fangelsi en þurfa sértækan stuðning til að tryggja bæði þeirra eigið öryggi og samfélagsins alls. Þetta úrræðaleysi hefur nú leitt til þess að tvö hörmuleg mál hafa komið upp.

  • Til útskýringar má þess einnig geta að báðir mennirnir voru látnir afplána fulla dóma þar sem hættan sem steðjaði af þeim var þekkt og því ekki boðið upp á reynslulausn, hins vegar hefur það í för með sér að þegar þeim er sleppt er ekkert eftirlit haft með þeim.

Sveitarfélög eiga samkvæmt lögum að bera ábyrgð á þessum úrræðum en ljóst er að þau standa ekki ein undir því, sérstaklega þegar um er að ræða smærri sveitarfélög. Það hefur leitt til þess að einstaklingar með sértækar þarfir eru settir í aðstæður sem eru þeim og samfélaginu hættulegar. Afstaða hefur ítrekað bent á nauðsyn þess að bæta aðgengi að sérhæfðum búsetuúrræðum með sérhæfðu starfsfólki en ekkert hefur verið gert til að leysa þetta vandamál. Hættan varðandi þessa tvo einstaklinga var í raun fyrirséð og þeir eru aðeins hluti af örstækkandi hópi sem er á leið í samfélagið eftir afplánun dóma og enn fleiri eru þegar nú  frjálsir í samfélaginu.

Afstaða krefst tafarlausra aðgerða svo koma megi í veg fyrir frekari hörmungar. Stjórnvöld þurfa að bæta aðgengi að úrræðum fyrir einstaklinga sem losna úr fangelsi og tryggja að þeir fái þann stuðning sem þeir þurfa til að aðlagast samfélaginu á öruggan hátt. Ef ekki verður gripið til aðgerða nú þegar er hætta á því að fleiri hörmuleg atvik eigi sér stað.

Afstaða leggur áherslu á að stjórnvöld verði að axla ábyrgð sína á öryggi samfélagsins og tryggja að úrræði séu til staðar fyrir þá sem þurfa á þeim að halda. Við munum áfram berjast fyrir nauðsynlegum umbótum á geðheilbrigðiskerfinu og fullnustukerfinu til að koma í veg fyrir frekari atvik sem hafa skelfilegar afleiðingar.

Skildu eftir skilaboð