Fulltrúar frá rúmlega 20 þjóðum voru viðstaddir í Doha, höfuðborg Katar, þegar fundað var með fulltrúum Talibana um samskipti Afganistan við umheiminn.
Fyrir fundinn settu Talibanar þá kröfu að konur yrðu ekki viðstaddar fundinn og að konur frá Afganistan fengju alls ekki að vera viðstaddar.
Sameinuðu þjóðirnar hafa hlotið mikla gagnrýni fyrir að samþykkja skilyrði Talibana en fulltrúi Sameinuðu þjóðanna, Rosemary DiCarlo, tók fram að samþykki um að funda með Talibönum þýddi ekki viðurkenningu á lögmæti stjórnar þeirra yfir Afganistan.
Michael Kugelman sagði við ABC að Talibanar hefðu fengið það sem þeir vildu út úr fundinum þar sem þeir hefðu náð að stýra umræðunni inn á þau málefni sem þeir vildu ræða en gátu forðast umræðuefni eins og réttindi kvenna í Afganistan en konum þar í landi er bannað að mennta sig og fá einugis að vinna við ákveðin störf.