Úkraína er evrópskt vandamál

frettinPáll Vilhjálmsson, Pistlar, Úkraínustríðið1 Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Bandaríkin eru þreytt á kröfum Evrópuríkja að ausa vopnum og fé í Úkraínu, sem í raun er evrópskt vandamál. Á þessa leið mælir Elbridge Colby í Telegraph. Colby er handgenginn Trump. Telegraph telur að sigri Trump forsetakosningarnar í Bandaríkjunum í haust fái Colby áhrifastöðu í bandarískri utanríkisstefnu.

Úkraínudeilan var seld almenningi á vesturlöndum sem framhald af kalda stríðinu, barátta góðs og ills, borgaralegs lýðræðis gegn kommúnisma. Í raun er deilan ,,gamaldags landvinningastríð", eins og Þordís Kolbrún utanríkis orðar það. Bandaríkin og Evrópusambandið ætluðu sér landvinninga í austri, fyrst Úkraína síðan Rússland.

Kremlarbændur töldu sig hafa loforð frá falli Berlínarmúrsins og sameiningu Þýskalands að Nató og vestrið hygðu ekki á útþenslu í austurveg. Lítið fór fyrir þeim efndum. Eftir að Mið-Evrópa og Pólland og Eystrasaltsríkin urðu Nató-ríki um og eftir aldamót sögðu Rússar hingað og ekki lengra. Ef Nató væri friðarbandalag, eins og látið er í veðri vaka, hefði Rússum verið boðin aðild eftir fall járntjaldsins. En það gerðist ekki, stóð aldrei til.

Vestrið vildi Rússland ekki sem bandamann heldur sífellt veikari andstæðing er loks gæfi sig upp sem hjálenda án þess að skoti væri hleypt af. Stjórnvísin byggði á kaldastríðsforsendum, vestrið ynni Rússland með efnahagsmætti líkt og Sovétríkin voru lögð að velli. Er Úkraínu og Georgíu var boðin Nató-aðild á leiðtogafundi í Búkarest 2008 sendu Rússar vopnuð skilaboð, lögðu undir sig Georgíu í ágúst sama ár. Smáríki, var sagt í höfuðborgum vestursins. Rússar gjamma en bíta ekki, hafa ekki til þess tennur.

Stjórnarbylting í Kænugarði 2014 setti Úkraínudeiluna í farveg, sem fyrir hálfu þriðja ári breyttist í fullveðja stríð. Búkarest-yfirlýsingin er frá apríl 2008. Er fram líða stundir verður hún til marks um háflæði vestræns hroka. Í yfirlýsingunni er talað um árangursríkan herleiðangur í Afganistan. Ævintýrinu í múslímaríkinu lauk í ágúst 2021, 13 árum eftir Búkarest-yfirlýsinguna. Í 20 ár reyndi vestrið að umskapa Afganistan en mistókst herfilega. En, auðvitað, þá er um að gera að umturna kjarnorkuveldinu Rússlandi, léttmeti í samanburði við Afganistan, er það ekki?

Flest gengur vestrinu í óhag í Úkraínu. Stríðið mjakast hægt, mælt í landvinningum, en það eru Rússar sem sækja. Stjórnin í Kænugarði verst með vestrænum vopnum og fjármagni. Hve lengi enn er óvíst. Hitt er þeim ljóst, sem fylgjast með, að hverfandi líkur eru á hamingjuskiptum stríðsaðila.  

Nái Trump kjöri í nóvember gæti annað af tvennu gerst. Bandaríkin kipptu að sér höndunum og Úkraína yrði ofurseld Rússum. Hinn kosturinn er friðarsamningar, mjög á rússneskum forsendum.

Stuðningur kjósenda á vesturlöndum við Úkraínu mun ekki aukast. Almenningur er nógu upplýstur til að átta sig á að bitamunur en ekki fjár er á lýðræðisást í Kænugarði og Moskvu. Pútín í Rússlandi er með það umfram Selenskí í Úkraínu að hafa lögmætt lýðræðislegt umboð. Kjörtímabili Selenskí rann út í vor. Engar kosningar, stjórnað með tilskipunum. Fyrir margt löngu voru menn í hermannabúningum ráðandi afl í Suður-Víetnam, með Bandaríkin sem bakhjarl en litla alþýðuhylli. Selenskí sést aldrei nema í kakí-fötum. 

Evrópa, í merkingunni Evrópusambandið plús Bretland, á ekki roð við Rússlandi. Þrátt fyrir að telja hálfan milljarð, Rússland hýsir 150 milljón sálir, er Evrópusambandið efnahagsrisi á hernaðarlegum brauðfótum sem háður er rússneskum hrávörum, einkum gasi og olíu en einnig korni sem áður var úkraínskt en brátt rússneskt. Án Bandaríkjanna tapast Úkraína.

Litla Ísland má prísa sig sælt að vera ekki á áhrifasvæði Evrópusambandsins.

One Comment on “Úkraína er evrópskt vandamál”

  1. Nato er að hjálpa Úkraínu og Bandaríkin eru í Nato bara bull pólitík að segja að BNA er ekki í Nato.

Skildu eftir skilaboð