Páll Vilhjálmsson skrifar:
„Þetta [gervigreind] verður hluti af blaðamennsku. Þá er bara spurning hvernig við getum tryggt að gervigreindin fari að siðareglum.“
Tilvitnunin hér að ofan er höfð eftir Sigríði Dögg Auðunsdóttir formanni Blaðamannafélags Íslands. Sigríður Dögg og þáverandi varaformaður BÍ, Aðalsteinn Kjartansson, breyttu siðareglum félagsins eftir að uppvíst varð að blaðamenn nýttu sér andlega veikan einstakling, þáverandi eiginkonu Páls skipstjóra Steingrímssonar, til að byrla og stela gögnum sem blaðamenn smíðuðu úr samsæriskenningu um skæruliðadeild Samherja. Tilfallandi blogg útskýrði breytinguna á siðareglunum í formannstíð Sigríðar Daggar:
Einu sinni voru siðareglur sem tóku vara á að óvandaðir blaðamenn nýttu sér bágindi fólks.
Þriðja grein siðareglna Blaðamannafélags Íslands hljómaði til skamms tíma svona:
Blaðamaður vandar upplýsingaöflun sína, úrvinnslu og framsetningu svo sem kostur er og sýnir fyllstu tillitssemi í vandasömum málum. Hann forðast allt, sem valdið getur saklausu fólki, eða fólki sem á um sárt að binda, óþarfa sársauka eða vanvirðu.
Um svipað leiti og RSK-blaðamenn tóku til við að misnota alvarlega veikan einstakling var settur kraftur í að breyta siðareglum blaðamanna. Endurskoðaðar siðareglur litu dagsins ljós í vor [2023]. Búið er að fella út innihald þriðju greinarinnar um að ,,forðast allt, sem valdið getur saklausu fólki, eða fólki sem á um sárt að binda, óþarfa sársauka eða vanvirðu."
Varaformaður Blaðamannafélags Íslands, Aðalsteinn Kjartansson, á Heimildinni, áður RÚV, var í forystu nefndarinnar sem endurskoðaði siðareglunar. Aðalsteinn er sakborningur í yfirstandandi lögreglurannsókn á byrlun Páls skipstjóra og stuldi á síma hans. Aðrir sakborningar eru Þórður Snær Júlíusson, Arnar Þór Ingólfsson, Ingi Freyr Vilhjálmsson, allir á Heimildinni, og Þóra Arnórsdóttir sem var ritstjóri Kveiks á RÚV.
Allt eru þetta verðlaunablaðmenn Blaðamannafélags Íslands.
Gervigreind dytti ekki í hug að játast siðareglum, brjóta síðan reglurnar og smíða nýjar til að réttlæta afbrotið. Í blaðamennsku er gervigreind ekki vandamálið heldur fólk eins og Sigríður Dögg, Aðalsteinn og félagar.