Páll Vilhjálmsson skrifar:
Tæknimaður RÚV var fyrsti viðtakandi stolins síma Páls skipstjóra Steingrímssonar, samkvæmt nýjum gögnum . Eiginkona Páls byrlaði skipstjóranum 3. maí 2021. Daginn eftir, á meðan skipstjórinn lá milli heims og helju á gjörgæslu Landsspítalans, fór eiginkonan með símann á Efstaleiti, höfuðstöðvar RÚV. Tæknimaður, kallaður pródúsent á RÚV-máli, tók við símanum.
Tæknimaðurinn ónefndi kom við sögu í tilfallandi bloggi um síðustu helgi. Vísað var í frétt Mannlífs, sem er í fararbroddi fjölmiðla er fjalla um byrlunar- og símastuldsmálið. Í gær hjó Mannlíf í sama knérunn og birti upplýsingar sem ekki hafa áður komið fyrir sjónir almennings. Um tæknimanninn segir:
Rökstuddur grunur er um að síminn hafi verið opnaður af tæknimanni á RÚV og efni úr honum klónaður yfir í annan síma en þeim gögnum svo dreift á blaðamenn annarra miðla.
Tilfallandi telur raunar fullvíst að unnið hafi verið efni úr símanum, fréttir skrifaðar á RÚV, og þær sendar á Stundina og Kjarnann til birtingar eftir skipulagi. Stundin og Kjarninn birtu samtímis samræmda frétt, um meinta skæruliðadeild Samherja, þann 21. maí 2021. Skráðir höfundar fengu blaðamannaverðlaun. Þremenningarnir njóta þess heiðurs að vera sakborningar.
En það er tæknimaðurinn sem málið snýst um núna, fyrsti viðtakandi stolna símans á RÚV. Í Mannlífi kemur fram að tæknimaðurinn starfi enn á RÚV. Ef gefið er að tæknimaðurinn sé hluti af Kveik, sem Þóra Arnórsdóttir stýrði er byrlun og stuldur fóru fram, koma aðeins fjórir til greina. Á vefsíðu Kveiks eru tæknimennirnir kallaðir pródúsentar og taldir með umsjónarmönnum þáttarins, sem þýðir að hlutverk þeirra er ekki alfarið tæknilegs eðlis. Þeir eru:
Arnar Þórisson
Árni Þór Theodórsson
Garðar Þór Þorkelsson
Ingvar Haukur Guðmundsson
Samkvæmt nýjum gögnum í byrlunar- og símastuldsmálinu er einn af þessum fjórum viðtakandi stolna símans. Nú er ekki víst að allir fjórir hafi verið að störfum á Kveik/RÚV í maí fyrir þrem árum. Það myndi þrengja hringinn. Starfstitlar veita einnig vísbendingu; Arnar Þórisson er titlaður „yfirpródúsent.“
Eftir viðtöku var sími skipstjórans afritaður á síma sem Þóra Arnórsdóttir hafði keypt fyrir byrlun skipstjórans. Að lokinni afritun var unnið með gögnin, fréttir skrifaðar, og þær sendar til birtingar á Stundina og Kjarnann, sem nú heita Heimildin. Tæknimaðurinn starfaði undir ritstjórn Þóru. Ábyrgðarmaður Þóru er aftur Stefán Eiríksson útvarpsstjóri.
Þóra Arnórsdóttir fékk stöðu sakbornings í byrlunar- og símastuldsmálinu í febrúar 2022. Stefán hélt yfir henni verndarhendi í heilt ár. Ekki fyrr en upp komst að hún keypti símann sem notaður var til að afrita síma skipstjórans var Þóra látin fara frá RÚV - ári eftir að hún fékk stöðu sakbornings. Ekkert kveðjuhóf var haldið til heiðurs Þóru sem var ritstjóri Kveiks frá upphafi. Frétt RÚV, sem tilkynnir brotthvarf hennar, er skrifuð í sársauka og skömm. En engin játning fylgdi skyndilegu brotthvarfi Þóru. Það átti að ljúga með þögninni.
Tilfallandi hefur fjallað um byrlunar- og símastuldsmálið frá nóvember 2021. Margir héldu að um uppspuna tveggja Pála væri að ræða, skipstjórans og tilfallandi. Viðkvæðið var að óhugsandi væri að RÚV tæki þátt í ráðabruggi þar sem koma við sögu alvarleg líkamsárás með byrlun og gagnaþjófnaður. Jafnvel lögreglan átti erfitt með að trúa harðsvíruðum starfsháttum sem viðgangast á Glæpaleiti. Á verðlaunagemsunum var tekið með silkihönskum. Skipstjórinn og lögmaður hans hafa skrifað harðort bréf til ríkissaksóknara til að mótmæla linkulegri lögreglurannsókn.
Er frá leið áttuðu glöggir lesendur sig á því að RÚV var miðstöð ólöglegs athæfis. Það var ekki endilega tilfallandi blogg sem sannfærði, heldur hitt að blaðamenn RSK-miðla (RÚV, Stundin og Kjarninn) gátu ekki útskýrt hvernig fréttirnar í Kjarnanum og Stundinni urðu til. Fréttirnar tvær birtust samtímis 21. maí 2021 og vísuðu báðar í gögn úr síma Páls skipstjóra. Heimildir detta ekki af himnum ofan, þeirra er aflað. Í þessu tilfelli með byrlun og stuldi.
Ef hægt væri að setja saman trúverðuga frásögn og útskýra hvernig samræmdar fréttir um meinta skæruliðadeild Samherja urðu til væri löngu búið að segja þá frásögn af sakborningunum sjálfum. En þeir þegja eins og sakamenn sem bíða átekta eftir hve miklar sakir lögreglunni tekst að sanna á þá. Aðrir fjölmiðlar láta sér vel líka. Heiður stéttarinnar er í húfi en blaðamenn snerta varla á málinu. Stærsta frétt íslenskrar fjölmiðlasögu þykir ekki sæta tíðindum.
Guðfaðir þagnar sakborninganna er Stefán Eiríksson útvarpsstjóri. Stefán gerir ekkert til að upplýsa aðkomu RÚV að alvarlegu sakamáli. Aðgerðaleysi útvarpsstjóra annars vegar og hins vegar tregða að afhenda lögreglu gögn er sérstakur undirkapítuli byrlunar- og símastuldsmálsins. Nánar um Stefán á næstunni.