Trump og nýhægrið: alþýðan fyrst, elítan síðast

frettinErlent, Páll VilhjálmssonLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Trump er ekki ismi í merkingunni hugmyndafræði. Varaforsetaefni hans, J.D. Vance, er aftur hluti af hreyfingu, hugmyndafræði, sem kennd er við nýhægrið. Samstarfsmaður varaforsetaefnis Trump, Oren Cass, var til viðtals á Unherd.

Viðtalið gefur hugmynd um vegferð áhrifamesta hægriflokks vesturlanda, Repúblikanaflokksins. Nýhægrið er í andstöðu við nýfrjálshyggjuna að því leyti að frjáls viðskipti á alþjóðavísu eru ekki æðsta boðorðið Framleiðslukapítalismi er tekinn fram yfir frjálst fjármangsflæði.

Ég gekk ekki með bækur Hayek og Friedmann á mér, segir Cass í viðtalinu og vísar þar til tveggja stórmenna nýfrjálshyggjunnar, Friðrik Hayek og Milton Friedman. Nýhægrið tekur þjóðarhagsmuni fram yfir frjáls viðskipti, t.d. með tollavernd fyrir innlenda framleiðslu.

Öflugur framleiðsluiðnaður er forsenda hagsælar og þjóðaröryggis, segir Cass.

Ráðandi alþjóðahyggja eftir lok kalda stríðsins var tvíhöfða þurs. Frjáls viðskipti á alþjóðavísu í anda nýfrjálshyggjunnar annars vegar og hins vegar opin landamæri vinstrimanna með sinni fjölmenningu og siðferðislegu afstæðishyggju.

Nýhægrið hafnar hvorutveggja. Kristin gildi eiga upp á pallborðið. J.D. Vance skírðist til kaþólsku fyrir fáum árum. Landamærin verða lokuð óverðugum - þeim sem ekki koma til að samlagast viðtökuríkinu. Fjölmenning og transfræði eru ekki hluti af samfélagsmynd nýhægrisins, heldur kjarnafjölskyldan og heimafengið gildismat.

Í utanríkismálum eiga hvorki Nató né Selenskí í Úkraínu vinum að mæta í nýhægrinu. Evrópa á að sjá um sínar varnir sjálf og ævintýramennska með herleiðangri á framandi slóðir er liðin tíð. Bandaríkin verður ekki lengur heimslöggan. Aftur er það alþjóðahyggjan sem geldur afhroð.

Launamenn eru í forgangi nýhægrisins en fjármagnseigendur síður. Verkalýðsleiðtogi frá Teamsters flutti ávarp á flokksþinginu þessa dagana. Fyrir hvern frjálshyggjumann sem við töpum úr Repúblikanaflokknum fáum við tíu launamenn, segir Cass í viðtalinu. Ekki gildir lengur mantran að ódýrt vinnuafl sé gott fyrir viðskiptalífið og neytendur. Alþýðan er fyrst og síðast launamenn, ekki neytendur.

Nýhægrið og Trump er ekki sami hluturinn. En með vali á J.D. Vance sem varaforseta sendir Trump pólitísk skilaboð um að nýhægrið sé bakland sem hann ætlar að stóla á.

Skildu eftir skilaboð