Jón Magnússon skrifar:
Lilja Alfreðsdóttir þáverandi menntamálaráðherra segir að menntamálastofnun hafi ekki ráðið við að leggja fyrir samræmd próf með stafrænum hætti og því hafi hún ekki séð annan kost í stöðunni en að leggja þau niður árið 2021.
Samræmd próf eru nauðsynleg til að fá mat á hæfni nemenda og hægt sé að bera saman námsárangur nemenda í mismunandi skólum.
Samt sem áður þegar koma upp erfiðleikar þá bregst ráðherra þannig við að leggja niður samræmdu prófin í stað þess að fá aðila til að framkvæma þau sem ræður við verkefnið.
Það eru engin flókin geimvísindi að leggja fyrir samræmd próf með stafrænum hætti. Hafi menntamálastofnun ekki ráðið við verkefnið þá þurfti að fá aðra aðila sem réðu við málið.
Það er ekki hægt að fórna hagsmunum barnana okkar, æsku Íslands vegna leti stjórnmálamanna og vanhæfrar stjórnsýslu. Sé pottur brotinn þá verður að líma hann saman eða fá nýjan.
Við verðum sem þjóð að hafa metnað til að gera eins vel og við getum og stjórnmálamennirnir mega ekki leyfa sér það að gefast upp við að leysa verkefni svo þeir geti haldið áfram í partýinu án þess að láta eitthvað bögga sig.