Páll Vilhjálmsson skrifar:
Alexander Stubb Finnlandsforseti er harðlínumaður, nánast Rússahatari. Pútín og Rússar skilja aðeins valdbeitingu, segir Stubb fyrir tveim árum í ítarlegu eintali um Úkraínustríðið. Til að skilja Pútín, segir sá finnski, verður maður að kynna sér sögu Péturs mikla, Katrínar miklu og Stalín. „Ég hef hitt Pútín, hann hatar vestrið,“ segir Stubb fyrir tveim árum þegar Úkraínustríðið var hafið en lítt komið á rekspöl.
Á stjórnmálaferli sínum hitti Stubb Pútín oftar en einu sinni og margan annan úr röðum forystumanna Kremlar. Stubb er alþjóðasinni, hefur verið æðstur ráðamanna í Finnlandi, utanríkis-, fjármála- og forsætisráðherra, og gengt veigameiri stöðum í alþjóðakerfinu - er sem sagt treyst af efri lögum alþjóðaelítunnar. Og, já, Stubbs á ættir að rekja til Kirjálahéraðs sem Sovétríkin hirtu af Finnum í seinna stríði.
En hvað gerir Stubbs núna í ágúst 2024? Jú, hann leggur til að Selenskí gefist upp fyrir Pútín og Rússum. Ekki segir sá finnski það hreint út en meiningin er uppgjöf klædd í friðarsamninga. Uppgjöf er að gefa Rússum eftir úkraínskt land, segir Selenskí. Þið verðið að gefa eftir land til Rússa, segir finnski forsetinn.
Hér má gera langa sögu stutta. Ástæðan fyrir uppgjöf Stubb fyrir hönd Selenskí og Úkraínu er að staðan á vígvellinum er gjörtöpuð. Stubb er vel læs á hernaðarstöðuna í Úkraínu. Hún er töpuð vestrinu. Nú er að semja til að eitthvað verði eftir af Úkraínu, sem vestrið gæti haldið lífi í svo að landamærin við Pólland komist ekki í uppnám. Að ekki sé talað um landamæri Ný-Nató ríkisins Finnlands. Kirjálahéraðið og afdrif þess eru í huga forseta Finnlands en ekki lengur heilaga vestræna bandalagið sem má ekki gefa tommu eftir af áhrifasvæði sínu á landamærunum við Rússland.
Ræman, eintal Stubb, sem vísað er í hér að ofan, er samfelld gagnrýni á helsta talsmann raunsæis í alþjóðastjórnmálum, Bandaríkjamannsins John Mearsheimer. Eftir tveggja ára stríð glittir í raunsæi hjá þeim finnska. Einhver í gyðingahatursráðuneyti Þórdísar Kolbrúnar ætti að vekja athygli ráðherra á sinnaskiptum Stubb. Vítin eru til að varast.