Páll Vilhjálmsson skrifar:
Í óeirðum í þriðja heims ríkjum fylgir oft frásögn að óvinveitt ríki kyndi undir innanlandsófriði. Iðulega er tilefni til slíkra frásagna. Vestræn ríki, gömlu nýlenduveldin og Bandaríkin, eiga það til að skipta sér af innanlandsmálum þróunarríkja.
Þriðja heims ríki glíma oft við margvísleg vandamál sem birtast í vantrausti almennings á yfirvöldum. Nú ber svo við að Bretland sýnir þriðja heims einkenni. Gagnkvæm andstyggð þjóðfélagshópa og veik sjálfsímynd heildarinnar grefur undan tilburðum yfirvalda að halda uppi röð og reglu.
,,Erlend ríki kynda undir upplýsingaóreiðu sem er olía á eld óeirðanna," er haft eftir talsmanni Starmer forsætisráðherra í Telegraph. Eins og nærri má geta er Pútín og Rússum kennt um. Dálítið hjárænulegt af gamla nýlenduveldinu að kenna roðanum í austri um vangetu að halda skikki á eigin málum.
Neyðarfundur ríkisstjórnar Verkamannaflokksins í Bretlandi vegna óeirðanna sýnir að yfirvöld eru við að missa tökin. Auðmaðurinn Elon Musk, eigandi X (Twitter), segir borgarastríð óhjákvæmilegt í Bretlandi. Starmer mótmælir.
Bresk yfirvöld hafa á liðnum árum tekið mildilega á óeirðaseggjum sem í nafni loftslags (Just stop oil), kynþátta (BLM) og herskárra múslíma (Hamas) valda upplausn, líkamstjóni og eignaskemmdum. Málstaðurinn í þessum þrem tilvikum er vinstrisinnaður og rímar við ráðandi hugmyndastrauma. Þeir sem nú herja á breskt samfélag eru kenndir við hinn vænginn, yfirleitt með forskeytinu öfga-. Sumar óeirðir eru til marks um lifandi og kröftugt lýðræði á meðan aðrar eru stimplaðar öfgar.
Er yfirvöld sjá í gegnum fingur sér með tilteknar óeirðir, en aðrar ekki, verður til sú hugmynd að án vandalisma þokist mál ekkert. Lýðræðið sé í raun ekki samtal og friðsöm skoðanaskipti heldur spurning um hvaða hópar eru hatrammastir í ofbeldisaðgerðum. Á þá hópa er fremur hlustað en hina hófstilltari. Hér er komin uppskrift að endalokum lýðræðis.
Enskt samfélag fékk ekki að kenna á byltingum og byltingartilraunum líkt og mörg evrópsk ríki frá og með frönsku byltingunni í lok 18. aldar. Af þeirri ástæðu er England fyrirmynd að lýðræði án blóðsúthellinga.
Ný ríkisstjórn Verkamannaflokksins á ærið verkefni fyrir höndum. Ekki er trúverðugt að hlaupa til, boða neyðarfundi og kenna Pútín um ófremdarástandið. Verklagið minnir á stjórnarháttu þriðja heims ríkja þar sem almennt vantraust ríkir gagnvart yfirvöldum. Þjark Starmer forsætisráðherra við Musk auðmann um hvort Bretland sé á forstigi borgarastyrjaldar málar ástandið sterkum litum.
Útlendingastefna breskra stjórnvalda síðustu áratugi er rótin að óeirðunum. Opingáttarstefnan er ekki bresk uppfinning heldur vestræn alþjóðahyggja í framkvæmd. Komið er að skuldadögum. Ekki aðeins í Bretlandi.