Páll Vilhjálmsson skrifar:
Óvænt árás Úkraínuhers inn í Rússland fyrir fjórum dögum var árangursrík, bæði í pólitísku og hernaðarlegu tilliti. Hröð framsókn sýnir að árásin kom Rússum í opna skjöldu, hvorki var til að dreifa á svæðinu varnarlínu, s.s. jarðsprengjusvæðum, né herliði.
Síðustu mánuði hefur Úkraína verið vörn á allri víglínunni, sem er um þúsund km löng. Innrás inn í Rússland sýnir að Úkraínuher er hvergi af baki dottinn og geti sótt fram ef svo ber við.
Enn er ekki ljóst hve mikill her fór inn í Rússland og hvort landvinningar haldi áfram. Þá eru markmiðin ekki ljós. Nefnt er að kjarnorkuver nærri Kúrsk-borg sé á aðgerðaáætlun Úkraínuhers. Rússar yrðu ragir að berjast um kjarnorkuver í nágrenni byggðar og myndu tæplega jafna það við jörðu. Kjarnorkukatastrófa yrði verulegt högg fyrir Kremlarherra.
Innrásin er áfall fyrir Rússa, hernaðarlega, pólitískt og sálfræðilega. Hingað til hefur eingöngu verið barist á úkraínsku landi. Innrás í móðurlandið gæti haft afleiðingar fyrir stöðu Pútín forseta.
Síðustu fregnir í morgun herma að dregið hafi úr framrásinni í Kúrsk. Í morgun segir myndbandabloggari hlynntur Úkraínu að Rússar hafi flutt nægt herlið á vettvang til að stemma stigu við framrás Úkraínuhers. Það viti ekki á gott með framhaldið. Annar bloggari, sem reynir að vera hlutlaus, dregur upp sömu mynd.
Síðustu vikur er rætt um mögulega friðarsamninga. Ein tilgáta er að Úkraína ætli sér að leggja undir sig rússneskt land til að nota í skiptum fyrir úkraínsk landssvæði í friðarsamningum.
Opin spurning er hvort Úkraínumenn nái að bíta sig fasta á rússnesku landi. Ef ekki fer fyrir lítið ávinningur síðustu fjögurra daga í Kúrsk.