Páll Vilhjálmsson skrifar:
„Ég er mikil talskona frelsis. Mér finnst að frelsið mætti eiga fleiri vini hér í Alþingishúsinu. Flestir þingmenn í þessu húsi kalla sig frjálslynda, sem mér finnst í sumum tilvikum vera bull. Það fer ekki saman að tala um frjálslyndi og tala síðan stöðugt um að að ríkið verði að hafa vit fyrir fólki,“ segir Hildur Sverrisdóttir þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins í viðtali við Morgunblaðið.
Frjálslyndi og frelsi er ekki sami hluturinn í pólitískri orðræðu samtímans. Raunar tvennt ólíkt.
Frelsi er að borgarar fái jöfn tækifæri til að gera það úr sínu lífi sem hugurinn stendur til. Flestir, þó ekki allir, sem aðhyllast frelsi í þessum skilningi, eru hlynntir að ríkið tryggi lágmarksvelferð og innviði.
Frjálslyndi er að ríkið sjái til þess að niðurstaðan í atvinnuþátttöku almennings verði sem jöfnust og bjóði gott viðurværi feimnum til vinnu, velferðarbætur af margvíslegu tagi, listamannalaun o.s. frv.
Frelsið samþykkir ójöfnuð sem hluta af mannlífinu enda fólk ólíkt. Frjálslyndið krefst jafnaðar niður á við.
Við búum í frjálslyndu samfélagi víðtækra ríkisafskipta. Álitamál er fyrst og fremst hve víðtæk ríkisafskiptin eigi að vera á hverju sviði. Enginn í pólitík leggur t.d. til einkavæðingu mennta- og heilbrigðiskerfis.
Ofanritað á fyrst og fremst við efnahagskerfið og ríkisfjármál s.s. skattapólitík og innviði.
Í breiðari skilningi, félags- og menningarlega, eru frjálslyndi og frelsi enn meiri andstæður en í efnahagsmálum. Þar stendur yfir hin raunverulega pólitíska barátta.
Frelsið er þar einstaklingshyggja þar sem hver og einn hagar sínu lífi eins og hann kýs, svo fremi að hann gangi ekki á rétt annarra, borgar sína skatta og hlýðir lögum.
Frjálslyndi er í þessum breiða skilningi krafa um að samfélagið gangi í takt við opinbera- og hálfopinbera stefnu, sem hversdags er kallaður pólitískur rétttrúnaður. Þar gildir að kreddur sem fá gæðavottun ráðandi afla, t.d. manngert veður og trans, skal með öllum tiltækum ráðum troðið ofan í kok borgaranna hvort sem þeir vilja eða ekki. Kreddurnar eru notaðar til að réttlæta margvísleg inngríp í daglegt líf almennings - með þeim rökum að æðri gæði séu í húfi. Kredda hefur aðeins gildi fyrir þá sem á hana trúa. En þeir frjálslyndu eru svo yfirmáta sannfærðir um að þeirra kreddur séu vegurinn, sannleikurinn og lífið að þeir eru meira en tilbúnir að afnema frelsi þeirra sem vilja ekkert með kennisetningarnar að hafa.
Tilfallandi getur alveg lifað við frjálslyndi í efnahagspólitík, svona um það bil eins og hún er rekin. En hann sér óhugnanlega alræðistilburði í félagslegu og menningarlegu frjálslyndi. Í myrku frjálslyndi er frelsið í andnauð.