Að loknum Ólympíuleikunum

frettinBjörn Bjarnason, ÍþróttirLeave a Comment

Björn Bjarnason skrifar:

Allt er þetta afreksfólk. Það er aðeins elítan í íþróttaheiminum sem tekur þátt í Ólympíuleikunum.

Ólympíuleikunum 2024 lauk með glæsibrag í París að kvöldi sunnudagsins 11. ágúst og stórleikarinn Tom Cruise fór með fána leikanna til Los Angeles þar sem þeir verða háðir eftir fjögur ár.

Leikarnir eru einstakt sameiningartákn í heimi þar sem sundrung, stríð, heift og hatur setur svip á daglegar fréttir. Umgjörð leikanna var einstök að þessu sinni og margt sem bar fyrir augu á sjónvarpsskerminum var eftirminnilegt hvort heldur um íþróttaafrek eða svipmyndir frá París var að ræða.

Tæknin við að miðla því sem gerist og sýna meistarana í návígi skilur eftir þá tilfinningu að heima í stofu komist maður í snertingu við sekúndubrotin sem skilja á milli hlaupara eða sentimetrana sem ráða úrslitum í stökkum eða köstum.

Ríkissjónvarpið lagaði fréttatíma sinn að leikunum. Að kvöldi hvers dags birtust á skjánum sérfræðingar sem leiddu áhorfendur til dýpri og fyllri skilnings á því sem borið hafði fyrir augu í beinni útsendingu og spennandi lýsingu fyrr um daginn. Allt var það vel gert (stundum gleymdist að vísu að orðið verðlaun er fleirtöluorð, tvenn, þrenn og fern verðlaun en ekki tvö, þrjú og fjögur). Fyrir þá sem eru teknir að tapa heyrn var oft erfitt að greina það sem sagt var beint frá París.

Enginn Íslendingur komst á verðlaunapall að þessu sinni. Fimm Íslendingar voru í hópi keppenda: sundfólkið Anton Sveinn McKee og Snæfríður Sól Jórunnardóttir, þríþrautarkonan Guðlaug Edda Hannesdóttir, skotfimimaðurinn Hákon Þór Svavarsson og kúluvarparinn Erna Sóley Gunnarsdóttir.

Fyrir utan keppendurna sem allir stóðu sig vel voru þrír íslenskir handboltaþjálfarar á leikunum: Þórir Hergeirsson sem stýrði norska kvennalandsliðinu til gullverðlauna, Alfreð Gíslason sem stýrði þýska karlalandsliðinu til silfurverðlauna og Dagur Sigurðsson þjálfari karlaliðs Króatíu.

Allt er þetta afreksfólk. Það er aðeins elítan í íþróttaheiminum sem tekur þátt í Ólympíuleikunum. Í íþróttum er lögð áhersla á að komast í elítuna með því að leggja mat á mælanlegan árangur og ná sem lengst.

Annars staðar, til dæmis í stjórnmálum, leiðir tal um elítur til spennu og jafnvel reiði. Innan íslenska grunnskólakerfisins hefur verið mótuð sú stefna að veita hvorki verðlaun fyrir góðan námsárangur né birta opinberlega upplýsingar sem sýna stöðu einstakra skóla innan heildarinnar. Þar má ekki kynna afrek og elítu er hafnað.

Ólympíuleikar án mælanlegs árangurs og gull-, silfur- og bronsverðlauna eru óhugsandi. Keppnin á að vekja áhuga og kalla á breiða þátttöku í íþróttum meðal hverrar þjóðar. Það verða aðeins til afreksmenn hafi þeir verðuga keppinauta og viðunandi aðstöðu á heimavelli.

Í ríkissjónvarpinu var rætt við Véstein Hafsteinsson, afreksstjóra Íþróttasambands Íslands (ÍSÍ). Hann boðar breytingar á íslensku afreksstarfi og segir framtíðarárangur Íslands á alþjóðasviðinu vera langtímaverkefni. Hann leggur nú á ráðin um þátttökuna í leikunum í Los Angeles 2028 – ekki er ráð nema í tíma sé tekið. Megi honum og íslensku afreksfólki vel farnast!

Skildu eftir skilaboð