Fjölmiðlar, óþarfi?

frettinFjölmiðlar, Geir Ágústsson, InnlentLeave a Comment

Geir Ágústsson skrifar:

Það var ánægjulegt að horfa og hlusta á nýlegan þátt Dagmála Morgunblaðsinsundir fyrirsögninni Fjörbrot fjölmiðla. Þar ræddu þrír blaðamenn sem ég ber ákveðna virðingu fyrir, jafnvel mikla, um breytt landslag fjölmiðla og fjölmiðlunar og um greinilega naflaskoðun var að ræða, sem er sérhverri starfsgrein bráðholl.

Í grófum dráttum voru tvö sjónarmið til umræðu:

  1. Upplýsingar eru á hverju strái, nánast ókeypis, og óþarfi að bíða eftir fjölmiðlum til að bera þær á borð
  2. Upplýsingar þarf að setja í samhengi, og kalla á upplýsingar sem renna ekki út af sjálfsdáðum, og til þess þarf fjölmiðla

Ég er sammála báðum sjónarmiðum.

En ef það er eitthvað sem plagar fjölmiðla umfram allt þá er það eltingaleikur þeirra við það sem þeir telja vera vinsæl sjónarmið. Þeir brugðust allir á veirutímum þegar yfirvöld léku á þá eins og hljóðfæri - mögulega banabiti fjölmiðla um alla framtíð. Þeir taka allir sömu einhliða línuna í öllum utanríkismálum Bandaríkjanna sem Evrópa er látin taka þátt í. Þeir taka yfirleitt stöðu gegn almenningi þegar hann er búinn að fá upp í kok af eyðileggingu velferðarkerfisins og annarra stofnana sem venjulegt fólk reiðir sig á, gegn svimandi skattheimtu.

Fjölmiðlar segjast veita samhengi, krefjast svara og draga saman sjónarmið. Það gera þeir samt ekki. Bara alls ekki. Það er hvergi nærri því línan í þeirra vinnubrögðum.

Ef hefðbundnir fjölmiðlar eru að deyja þá er það af því þeir eru að fremja sjálfsmorð en ekki af því upplýsingar - skoðanir allra á samfélagsmiðlum - eru á hverju strái.

Mér finnst fjölmiðlar vera bráðnauðsynlegir, en bara ef þeir gera það sem þeir segjast vera að gera, ekki ef þeir eru bara gjallarhorn stjórnvalda.

Séu þeir að fremja sjálfsmorð þá þeir um það. Við hin finnum út úr lífi án þeirra.

Skildu eftir skilaboð