Páll Vilhjálmsson skrifar:
DV sendir skeytin á Hádegismóa. DV er í eigu sömu aðila og gáfu út Fréttablaðið sáluga og halda einnig úti stjórnmálaflokki, Viðreisn. DV-flokkurinn berst núna gegn íslensku krónunni en þegir um ESB-aðild - í þeirri von að almenningur láti blekkjast.
Davíð Oddsson ritstjóri Morgunblaðsins er skotmark DV-manna. Fundið er að þeirri venju Davíðs að tala við fólk. DV heldur yfirlit yfir aldur ritstjórans og vill gjarnan að hann fari á eftirlaun. Líklega er það af góðsemi. Eftirlaunaþegar eiga hægara um vik að ræða við mann og annan en launaþrælar.
Í annarri frétt gerir DV því skóna að pólitísk áhrif Mogga fari þverrandi, væntanlega þar sem ritstjórarnir eyði meiri tíma í samskipti við fólk en hollt teljist. Meint pilla er lítt dulin lofrulla um áhrifavald Morgunblaðsins. Kallaður er til vitnis um léttvigt Morgunblaðsins foringi Sósíalistaflokksins, Gunnar Smári Egilsson. Samkvæmt Gunnari Smára fréttir hann núorðið seint og um síðir af sínum málum í blaði allra landsmanna. Af sem áður var er tíðindin bárust Smáranum snemmendis.
Gunnar Smári segist hafa hitt mann í kjörbúð. Og um hvað ræddu þeir þá örskotsstund sem menn hjala við búðarrekka? Jú, hversu hratt þeim bærist til eyrna að hafa verið nefndir í Staksteinum. Menn hittast á förnum vegi og metast hvort nöfn þeirra komist í Davíðsannála. Tilvísun tryggir tilvist. Í anda Descartes; Moggi ergo sum.
Á Hádegismóum hljóta menn að una glaðir við að DV leggi sig í líma að útmála sterka stöðu Morgunblaðsins.