Björn Bjarnason skrifar:
Uppákoman vegna ummæla framkvæmdastjóra Kirkjugarða Reykjavíkur minnir á að ekki er aðeins nauðsynlegt að sýna kirkjugörðum virðingu í verki heldur einnig orði.
Í lögum um kirkjugarða segir að þeir og grafreitir séu friðhelgir. Kirkjugarða þjóðkirkjunnar skal prestur vígja. Kirkjugarðsstjórn getur ákveðið sérstakan minningarreit í kirkjugarði vegna horfins manns og nýtur sá reitur sömu friðhelgi og grafreitur. Skráðum trúfélögum sem hafa forstöðumann er heimilt að taka upp sérstakan grafreit. Gilda um upptöku hans, viðhald, afnot, stjórn, fjárhag og niðurlagningu sömu reglur sem um kirkjugarða þjóðkirkjunnar eftir því sem við getur átt. Heimilt er að afmarka óvígðan reit innan kirkjugarðssvæðis ef hlutaðeigandi kirkjugarðsstjórn samþykkir það.
Lögin um kirkjugarða eru ítarleg og nákvæm enda er það talið til marks um menningarstig þjóða hvaða virðingu þær sýna afmörkuðum grafarsvæðum.
Ummæli framkvæmdastjóra Kirkjugarða Reykjavíkur í sjónvarpsfréttum ríkisins á dögunum hafa vakið miklar umræður. Hann lét meðal annars orð falla á þann veg að sumum þætti kirkjugarður dálítið „krípí konsept“ og þess vegna ætti kannski að tala um minningarreit eða grafreit. Eins og að ofan greinir eru þau orð þegar notuð í kirkjugarðslögunum til að skilgreina grafstæði.
Framkvæmdastjórinn var ekki nógu vel undir það búinn að ræða hlutverk sitt og kirkjugarða í samræmi við gildandi landslög. Hann á að sjálfsögðu að starfa innan kirkjugarðslaganna. Til að fullnægja ákvæðum þeirra ætti að vera forgangsmál hjá þeim sem á þessu sviði starfa að sjá til þess að líkhús og aðstaða til líkbrennslu falli að nútímakröfum. Svartur reykur úr skorsteini við Fossvogskirkju er sýnilegt merki um langþreytta ofna.
Þeir sem leggja leið sína í Fossvogskirkjugarð og ganga um Sóllandið, grafreit fyrir duftker, þar sem áður var Leynimýri, sjá hve mjög þeim fjölgar sem kjósa bálfarir. Þessi reitur var vígður árið 2009 og er til marks um mikla umhyggju þeirra sem búa um grafreiti. Um tíma var kyrrð staðarins rofin vegna óhljóða frá þeim sem fóru með nálægri svifbraut úr Perlunni niður Öskjuhlíðina. Sú starfsemi er nú aflögð og þarna ríkir friður.
Í Reykjavík er Hólavallagarður við Suðurgötu. Hann var vígður 1838 og notaður til 1932 þegar Fossvogskirkjugarður var vígður – annar garðurinn er kenndur við bæinn Hólavelli en hinn við Fossvogskirkju sem á sínum tíma var sóknarkirkja en þjónar nú sem útfararkirkja. Fyrir framan hana er afsteypa af frægri og fagurri styttu af Jesú Kristi með opinn faðm sem Bertel Thorvaldsen gerði fyrir Frúarkirkju í Kaupmannahöfn þegar hún var endurreist og vígð 1829.
Við hlið Fossvogskirkjugarðs má sjá gamalt og nýtt merki kirkjugarðanna eins og myndirnar sýna. Þá er hér einnig mynd af Fossvogskirkju með krossi, vonandi dettur engum í hug að fjarlægja hann.
Uppákoman vegna ummæla framkvæmdastjóra Kirkjugarða Reykjavíkur minnir á að ekki er aðeins nauðsynlegt að sýna kirkjugörðum virðingu í verki heldur einnig orði. Að láta undan þeim sem vilja svipta íslenska kirkjugarða kristnu svipmóti er ástæðulaust og fráleitt.