Páll Vilhjálmsson skrifar:
Enn einn blaðamaður hættir á Heimildinni. Alma Mjöll Ólafsdóttir verður framkvæmdastjóri þingflokks Vinstri grænna, segir í viðtengdri frétt. Í vor hættu tveir blaðamenn, Freyr Rögnvaldsson og sakborningurinn Ingi Freyr Vilhjálmsson. Fyrir þrem vikum lét af störfum annar tveggja aðalritstjóra útgáfunnar, Þórður Snær Júlíusson, eftir átök í hluthafahópnum.
Heimildin varð til í byrjun árs 2023 með samruna Stundarinnar og Kjarnans. Byrlunar- og símastuldsmálið knúði á um sameininguna. Fjórir blaðamenn, tveir af hvorum miðli, hafa stöðu sakbornings. Fimmti á ritstjórn Helgi Seljan rannsóknaritstjóri tengist málinu þótt ekki hafi hann formlega réttarstöðu, að því best er vitað. Sóknarfæri voru talin í að sameina sakborninga og gera úr þeim fórnarlömb. Það tókst ekki. Ástæðan er tvíþætt.
Í fyrsta lagi hroki. Aðalsteinn Kjartansson, Arnar Þór Ingólfsson, Þórður Snær Júlíusson og Ingi Freyr Vilhjálmsson sýndu af sér yfirlæti, töldu sig sem blaðamenn hafna yfir landslög. Í öðru lagi höfðu blaðamennirnir enga frásögn af atburðunum vorið 2021 þegar Páli skipstjóra Steingrímssyni var byrlað, síma hans stolið og hann afritaður á RÚV að undirlagi Þóru Arnórsdóttur ritstjóra Kveiks á RÚV. Fréttir úr símanum birtust ekki á RÚV heldur í Stundinni og Kjarnanum. Hvernig gat það gerst? Jú, með skipulagi. Glæpurinn gegn skipstjóranum var unninn í samráði þriggja fjölmiðla, RSK-miðla: RÚV, Stundarinnar og Kjarnans. Þessi frásögn liggur fyrir. Til að vinda ofan af henni urðu RSK-miðlar að bjóða upp á aðra frásögn, sem útskýrði málið. En þeir höfðu enga. Þórður Snær reyndi að gaslýsa en tókst ekki.
Við sameiningu fengu fyrrum hluthafar Kjarnans um 40 prósent í Heimildinni en Stundareigendur um 60 prósent. Samanlagt tap miðlanna tveggja, Stundarinnar og Kjarnans, síðasta starfsár þeirra, árið 2022, var rúmar 50 milljónir króna. Ekki hefur verið gefið upp hver útkoman var á síðasta ári, 2023. Hitt er vitað að Heimildin tapar jafnt og þétt lesendum. Síðasta mæling Gallup sýndi Heimildina með tæplega níu þúsund netnotendur vikulega. Til samanburðar er Mannlíf með 30 þúsund vikunotendur.
Heimildin er með um 25 starfsmenn en Mannlíf 6. Engin leið er að endar nái saman í útgáfunni. Þórður Snær, fráfarandi ritstjóri, reyndi hallarbyltingu í útgáfufélagi Heimildarinnar í sumar. Með um 40 prósent hluthafa á bakvið sig, gamla Kjarnahópinn, reyndi Þórður Snær að sannfæra valda hluthafa gömlu Stundarinnar að ganga í lið með sér og aðferðafræðinni sem hann vildi nota. Gaslýsing Þórðar Snæs var að
neita stanslaust allri sök, afvegaleiða, setja fram mótsagnir, ljúga upp á fólk afstöðu, hengja sig í öll aukaatriði og hanna nýja atburðarás eftir á sem hentar málstað þess sem er að verja sig.
Þórður Snær hafði reynt aðferðina frá nóvember 2021, þegar hann skrifaði leiðara um að byrlunar- og símastuldsmálið væri glæpur í höfði Páls Vilhjálmssonar. Gaslýsing ritstjórans gerði það eitt að renna stoðum undir grun um að blaðamennirnir höfðu eitthvað að fela, þorðu ekki að segja sannleikann.
Í sumar nenntu ekki einu sinni hluthafar að hlusta á óráðshjal Þórðar Snæs. Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir ritstjóri og maki hennar, framkvæmdastjórinn Jón Trausti Reynisson (Traustasonar ritstjóra Mannlífs) náðu vopnum sínum og komu í veg fyrir yfirtöku Þórðar Snæs.
Hluthafar sem studdu Þórð Snæ ráða yfir um 40 prósent hlutafjár. Þeir munu ekki setja nýtt hlutafé í Heimildina. Eftir standa hluthafar gömlu Stundarinnar. Samkvæmt hlutahafaskrá er aðeins einn þeirra nógu fjáður til að spýta inn fjármagni til að halda útgáfunni á floti. Höskuldur Höskuldsson heitir hann og efnaðist á að selja Landsspítalanum lækningavörur. Höskuldur gæti gert útgáfuna að einkafyrirtæki sínu en þá situr hann uppi með eitrað peð íslenskrar fjölmiðlunar og botnlausan taprekstur í ofanálag. Til að leggja í þann leiðangur þurfa menn að segja sig frá hvorutveggja, siðviti og fjármálaviti.
Fall Heimildarinnar er fyrirsjáanlegt. Stofnað var til útgáfunnar til að fela glæp. Byrlun og gagnastuldur er ekki hlutverk fjölmiðla. Blaðamenn og eigendur fjölmiðla sem ekki skilja þau einföldu sannindi eiga ekkert erindi á opinberan vettvang.