Sigríður tekur sér ráðherravald – Guðrún á aðeins einn kost

frettinInnlent, Páll VilhjálmssonLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari tók fram fyrir hendur dómsmálaráðherra er hún krafðist að Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari skilaði lyklum og vinnutölvu. Sigríður beindi til Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra fyrir þrem vikum að Helga Magnúsi yrði vikið tímabundið frá störfum.

Að krefjast lykla og vinnutölvu af Helga Magnúsi jafngildir uppsögn. Helgi Magnús kemur úr sumarfríi eftir þrjá daga. Sigríður ríkissaksóknari vildi útiloka að Helgi Magnús kæmist í vinnuna, láta þar með dómsmálaráðherra standa frammi fyrir orðnum hlut.

Fyrir hefur Sigríður viðurkennt að það sé ekki á hennar valdi að víkja vararíkissaksóknara úr starfi. Ekki einu sinni tímabundið. Vararíkissaksóknari er skipaður af ráðherra og Sigríður óskaði eftir við ráðherra að honum verði vikið tímabundið úr starfi. En á meðan ráðherra ígrundar tekur Sigríður ákvörðum, rekur Helga Magnús með kröfu um að hann afhendi lykla og vinnutölvu. AfturköllunSigríðar á kröfunni er ígildi þess er þjófur skilar þýfi. Þjófur samt.

Stjórnsýsla Sigríðar er sjálftekt: ég á embætti ríkissaksóknara og má gera það sem mér sýnist.

Upphaflegt álitamál í deilu Sigríðar og Helga Magnúsar var hvort hann hefði látið orð falla í opinberri umræðu sem samrýmdust ekki starfi hans.

Deilan snýst ekki lengur um orð Helga Magnúsar heldur athafnir Sigríðar. Ríkissaksóknari þverbrýtur lög og sýnir skýra og ótvíræða eineltistilburði gagnvart embættismanni.

Sjálftaka Sigríðar á ráðherravaldi skilur Guðrúnu dómsmálaráðherra eftir með aðeins einn kost. Ef Guðrún víkur Helga Magnúsi úr starfi samþykkir ráðherra að æðstu embættismenn taki lögin í sínar hendur og stundi geðþóttastjórnsýslu. Fordæmið er skelfilegt fyrir réttarríkið - hér á í hlut ríkissaksóknari. Guðrún getur ekki annað en hafnað þriggja vikna gamalli beiðni Sigríðar um að víkja Helga Magnúsi tímabundið frá störfum.

Ef Sigríði ríkissaksóknara er annt um lög og rétt í landinu segir hún af sér.

Skildu eftir skilaboð