Páll Vilhjálmsson skrifar:
Úkraínuher sækir fram í Kúrsk-héraðinu í Rússlandi. Samvkæmt DPA-rásinni er víglínan fljótandi. Frumkvæðið í höndum Úkraínuhers en Rússar elta. Vestrænir meginstraumsmiðlar vita ekki í hvorn fótinn þeir eiga að stíga: flýtir Kúrsk-aðgerðin falli Úkraínu eða er hún snjallasta herbragð seinni tíma stríðssögu og færir Selenenskí og félögum sigur yfir Pútín og Kremlarherrum?
Þýska útgáfan Die Welt er dæmi um tvísagnir af Kúrsk-aðgerðinni. Um hádegisbil í gær birtist fréttaskýring sem sagði aðgerðina flýta ósigri stjórnarhersins. Vitnað er í sérfræðinga sem draga upp dökka mynd af möguleikum Úkraínuhers í Kúrsk. Meginniðurstaða er að Úkraínu skorti mannskap og vestræn hergögn til að knýja fram sigur í Kúrsk og leggja undir sig rússneskt land svo nokkru nemi.
Síðdegis í gær birtist í sömu útgáfu, þ.e. Die Welt, fréttaskýring, einnig með vísanir í hernaðarsérfræðinga, er segir Kúrsk-aðgerðina í norðri líklega blekkingu af hálfu stjórnarinnar í Kænugarði. Raunverulegt markmið er leifturárás í suður, til að ná aftur Krímskaganum, sem Rússar hertóku fyrir áratug. Málsmetandi sérfræðingar virðast trúa að Úkraínuher sé í stakk búinn að stríða samtímis í norðri og suðri með árangri. En sami her gefur eftir á meginvíglínunni í Austur-Úkraínu.
Rússar ná síðustu daga verulegum landvinningum á austurvígstöðvum, á Donbass-svæðinu. Sé Kúrsk blekking og Krím næst á matseðlinum verður árangur í norðri og suðri keyptur með tapi í austri. Ef, og það er stórt ef, þetta sé raunveruleg áætlun Úkraínu.
Fréttir eru af stórfelldum liðssafnaði í Hvíta-Rússlandi, bandamanni Rússlands, við landamæri Úkraínu vestur af Kúrsk-héraði. Hersveitirnar í Hvíta-Rússlandi gætu verið rússneskar. Sé það tilfellið eru uppi áform um sókn að Kænugarði, höfuðborg Úkraínu.
Stríðsþoka er hugtak úr hernaðarfræðum. Átt er við að kvik staða á vígvellinum geri ómögulegt að spá um úrslit. Stríðsþoka virðist hafa lagst yfir stríðið í heild sinni síðustu daga. Tilfallandi skoðun er að Kúrsk sé ekki blekking og það verði engin árangursrík leifturárás á Krímskaga. Kúrsk-aðgerðin mun ekki skila niðurstöðunni sem vænst var, að Rússar flyttu herlið í stórum stíl frá Donbass til að verja móðurlandið. Kúrsk-hérað er ekki hernaðarlega mikilvægt svæði. Rússar hafa efni á að láta Úkraínuher leika þar lausum hala um hríð. Úkraína, aftur, hefur ekki efni á að tapa Donbass, austurvígstöðvunum. Eftir sigur þar er Rússum leiðin greið að Dnjepr-fljóti sem klýfur Úkraínu í tvennt.