Má ekki gera betur?

frettinInnlent, Jón MagnússonLeave a Comment

Jón Magnússon skrifar:

Aðhald og sparnaður virðist ekki vera til lengur í orðtakasafni íslenskra stjórnmálamanna. 

Fyrir nokkru var kynnt, að kostnaður við samgöngusáttmála á höfuðborgarsvæðinu hefði aukist úr 170 milljörðum árið 2019 með allri sinni Borgarlínu og öðru góðgæti í 311 milljarða. Kostnaðurinn nánast tvöfaldast frá 2019.

Var ekki ástæða til að staldra við og skoða hvort hægt væri að gera þetta með öðrum hætti?  Hvorki sáu ráðherrar eða stjórnendur sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu ástæðu til þess. Hafa verður í huga að stjórnendur sveitarfélaganna hafa ekki hag af því að skorið verði við nögl þar sem þeir fjármagna einungis 12,5% af öllum kostnaðinum en 87.5% greiðist úr ríkissjóði. Telja má upp á að stuðningsfólk Sigurðar Inga og Bjarna á Ísafirði, Húsavík og Hornafirði ærist af fögnuði yfir því að bera stærstan hluta reiknings Borgarlínunnar.

Það er síðan ekki stíll ráðherranna, Bjarni, Sigurðar Inga og Svanhvítar eða annarra ráðherra að vandræðast með fyrirbrigði eins og aðhald og sparnað. 

Hvers er að vænta ef fram heldur sem horfir með hækkanir samgöngusáttmálans miðað við annað stórvirki sem er í gangi á vegum ríkisins þ.e. nýi Landsspítalinn. 

Nýi Landsspítalinn átti að kosta skv.kostnaðaráætlun:

árið 2017 að kosta kr. 62.8 milljarða

árið 2021  -   79.1 milljarða.

árið 2022   -  90 milljarða.

árið 2023  -  210 milljarða. 

Ekki er vitað til þess að Landsstjórnin hafi gert neinar athugasemdir við þessa gríðarlegu framúrkeyrslu og fari svo að áætlanir vegna samgöngusáttmálans þróist með svipuðum hætti og nýi Landsspítalinn, gæti kostnaður við samgöngusáttmálann orðið eitt þúsund og eitt hundrað milljarðar þ.e. kr. 1.100.000.000.000

Dýr mundi Hafliði allur var sagt eftir að þeir sættust Hafliði Másson lögsögumaður og Þorgils Oddsson á Alþingi við Öxará árið 1121, en árið áður hafði Þorgils veitt Hafliða áverka þegar hann lagði til hans og sneið af löngutöng og framan af 2 öðrum fingrum. Fyrir milligöngu Skálholstbiskups tókust sættir með þeim Hafliða og Þorgils og fékk Hafliði sjálfdæmi um bætur sér til handa og ætlaði þær ríflega eða sem nam 250 kýrverðum eða 5.760 dagsverkum. Þótti það vel í lagt og var ætlan manna að ekki væri nægt fé til á Fróni svo að hægt  yrði að greiða fyrir Hafliða allan ef því væri að skipta. 

Vera má að sama eigi við um samgöngusáttmálann. 

Skildu eftir skilaboð