Geir Ágústsson skrifar:
Til stendur að taka upp nýja skattheimtu á ökumenn. Hún á mögulega að bæta upp fyrir þá skattheimtu sem þegar er við lýði og er að miklu leyti sóað í allt annað en vegakerfið og innviðina. Hin nýja skattheimta á að fjármagna það sem gamla skattheimtan ætti að fjármagna, en gerir ekki.
Heldur einhver að hin nýja skattheimta muni í raun renna í það sem henni er ætlað að fjármagna?
Hvað um það. Blaðamenn eru að reyna að komast að því hvað stendur til. Hvað mun nýja skattheimtan kosta fjölskyldur? Þá kemur furðulegasta svar sem lengi hefur verið skjalfest:
„Það er líka svolítið villandi að tala um per fjölskyldu myndi ég segja, þá ertu alltaf kominn með hærri tölu frekar en að það er talað um per bíl eða per einstakling.“
Villandi að tala um per fjölskyldu af því það fær skattheimtuna til að líta illa út, með öðrum orðum.
Auðvitað er það rangt að það sé villandi að tala um per fjölskyldu. Fjölskyldur í grunninn eru sambúð barna og fullorðinna - vinnandi fullorðinna og barna í skóla. Þegar skattheimtan er aukin á vinnandi aðila þá dregst úr ráðstöfunartekjum allrar fjölskyldunnar. Fé til matarkaupa fyrir börnin skerðist. Það er því alveg hárrétt nálgun að tala um kostnað per fjölskyldu frekar en að telja bara með fullorðna ökumenn og gleyma því að þeir standa undir þeim sem ekki vinna og keyra ekki - krökkunum, farþegunum sem treysta ekki síður á bílinn en ökumennirnir.
Ökumenn eiga ekki von á góðu. Þeir fá að borga og borga í skiptum fyrir ekkert. Hvað er langt síðan seinustu mislægu gatnamót voru byggð í Reykjavík? Eða á höfuðborgarsvæðinu ef því er að skipta? Er það þetta við Smáralind? Ímyndum okkur umferðina þar ef það svæði væri eins og gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar, eða Grensáss og Miklubrautar.
Manni fer að líða eins og aumingja manninum í myndinni Groundhog Day, sem vaknaði aftur og aftur á sama tíma á sama degi við sama þáttinn í útvarpsvekjaranum. Munurinn er samt sá að með nógu mörgum endurtekningum þá tókst honum að lokum að ná markmiði sínu. Ég ber enga slíka von fyrir hönd stjórnmálamanna á höfuðborgarsvæðinu og ráðherranna sem lofa þeim og kjósendum gulli og grænum skógum í skiptum fyrir enn einn sáttmálann, í skiptum fyrir enn einn skattinn sem hverfur í hítina.