Ingibjörg Gísladóttir skrifar:
Nýlega tóku fjórir fangar sem Moscow Times segir hafa verið halla undir ISIS tólf manns í gíslingu í fangelsi í Volgograd, átta fangaverði (stungu þrjá þeirra til bana) og fjóra aðra fanga. Eftir nokkurt þóf þá féllu allir fjórir fyrir byssukúlum sérsveitarmanna. RT segir vandræðamennina frá Úsbekistan og Taíkistan. Þetta er önnur gíslatakan í rússnesku fangelsi í sumar. Í júní tóku sex ISIS-liðar fangaverði í gíslingu nærri Rostov. Fimm þeirra voru drepnir en sá er lifði fékk 20 ára dóm enda er gíslataka illa séð í Rússlandi.
Í mars á þessu ári réðust fjórir hryðjuverkamenn með tengsl við ISIS-K (stofnuð í Afganistan 2014) inn í tónleikahús Crocus borgar, nærri Moskvu, þar sem rússneska hljómsveitin Picnic átti að fara að troða upp. Þeir voru vopnaðir hnífum og skotvopnum og kveiktu auk þess í húsinu. Talið er að 144 hafi látist og mörghundruð særst. Tilræðismennirnir náðust og samkvæmt myndum var ekki tekið á þeim með silkihönskum við handtökuna
Eftir hryðjuverkið í Crocus borg veltu menn á Aljazeera því fyrir sér af hverju ISIS-K stæði fyrir árásum í Rússlandi. Talað var við Michael Kugelman, forstjóra hugveitu í Washington, sem sagði að helsti hvati ISIS-K til árása í Rússlandi væri að þeir teldu Rússa vinveitta Talíbönum, erkióvinum sínum, en annars liti ISIS á alla utanríkisstefnu Rússa sem rautt flagg: Innrás Sovétmanna í Afganistan á sínum tíma; hvernig Rússar brutu uppreisn Tsétsena á bak aftur m.a. með gjöreyðileggingu Grozny; náin tengsl Rússa við stjórnir Sýrlands og Írans; stríð þeirra gegn ISIS í Sýrlandi og með Wagner málaliðum á svæðum í Afríku. Í greininni segir að búast megi við frekari árásum í Rússlandi og víðar, ekki síst vegna þess að margir þeirra sem börðust með ISIS í Sýrlandi hefðu komið frá Mið-Asíu - sérstaklega frá Taíkistan.
Í grein Aljazeera er rifjað upp þegar bardagamenn Tsétsena tóku 900 manns í gíslingu í leikhúsi Moskvu árið 2002 (130 létust, flestir vegna gass sem dælt var inn til að gera Tsétsenana sem voru með sprengibelti um sig miðja óvirka). Einnig var þar minnst á umsátrið um grunnskóla í Beslan 2004 þar sem aðskilnaðarsinnar Tsétsena höfðu komið sér fyrir. Þar létust 334 þar af 186 börn. Fréttamyndir af grátandi og örvæntingarfullum foreldrum fyrir utan skólann frá þeim tíma eru eftirminnilegar
Annars er það síðast af rússneskum öfgamönnum að frétta að fimm þeirra er réðust inn á flugstöð í Dagestan í október sem leið í leit að gyðingum er flugvél frá Tel Aviv millilenti þar á leið til Moskvu hafa verið dæmdir í 6-9 ára fangelsi. Þeir veifuðu Palestínufánum og hrópuðu "Allahu Akbar" en fundu aðeins rússneska ríkisborgara og þeir sem voru gyðingar munu hafa haldið því fyrir sig.
One Comment on “ISIS og ISIS-K minna á sig í Rússlandi”
Raunar er isis – k eða isis khorasan eins og það var kallað svona skúffa með nafni sem leyniþjónusta usa bjó til þegar þau voru að blása þessi fyrirbæri upp eins verið hefur. þessi eining hefur lítið framkvæmt og er eiginlega bara til á pappírum. Mest talað um þetta á vesturlöndum og þá í áróðurstilgangi.