Nú verður að bregðast við?

frettinInnlent, Jón Magnússon, StjórnmálLeave a Comment

Jón Magnússon skrifar:

Flokksráðsfundur Sjálfstæðisflokksins verður haldinn á laugardaginn kemur. Ég hafði fyrirfram væntingar um, að forusta Flokksins skynjaði að nauðsyn bæri til að flokksráðsfundurinn yrði með öðru sniði en því hefðbundna, í ljósi þess, að stöðugt hefur sigið á ógæfuhliðina fyrir Flokkinn í skoðanakönnunum svo mjög að ekki er hægt að skella skollaeyrum við þeim niðurstöðum. 

Flokkurinn hefur fallið úr því að vera langstærsti stjórnmálaflokkur fyrst í annað sæti og nú skv. nýjustu könnun er Flokkurinn kominn í 3 sæti. Miðflokkurinn er stærri. 

Fæstir hefðu trúað því að Sjálfstæðisflokkurinn sem hefur lengst af í sögu sinni verið með á milli 30 og 40% fylgi á landsvísu gæti fallið svo hrapalega sem kemur fram í nýjustu skoðanakönnun Maskínu, en þar mælist Sjálfstæðisflokkurinn með 13.9% fylgi.

Hvernig var  hægt að koma fylgi Sjálfstæðisflokksins niður í þessa lægð?

Verður ekki að skoða hvað veldur og hvernig ber að bregðast við. Svo virðist sem fylgi Sjálfstæðisflokksins í einstökum sveitarfélögum sé verulega mikið meira en fylgi flokksins á landsvísu. Þannig mælist Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík með 20% fylgi, sem er lágt en þó himinn og haf á milli þess og 13.9% fylgi sem flokkurinn mælist með á landsvísu. Einnig miðað við reynslu má telja upp á, að fylgi Flokksins í sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu sé umtalsvert mikið meira en í Reykjavík. Það bendir til að kjósendur Sjálfstæðisflokksins séu fyrst og fremst óánægðir með hvernig tekist hefur til í Landsstjórninni.

Þessi niðurstaða er ekki ásættanleg og bregðast verður við. Hvort sem forustu flokksins líka það betur eða verr, þá hefur verið ljóst í umræðunni, að ýmsum hefðbundnum fylgjendum Sjálfstæðisflokksins hefur fundist hann víkja um of frá grundvallarstefnumálum Flokksins og jafnvel látið stjórnast af ímyndarstjórnumálum í anda VG og Samfylkingar. 

Þá hræða sporin í útlendingamálum, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn ber því miður umfram aðra ábyrgð á því ófremdarástandi sem orðið er, þó Flokkurinn hafi stigið rétt skref í þeim efnum á síðustu misserum, sem eru þó fjarri því að vera fullnægjandi. 

Flokksfólk þarf að láta í sér heyra og koma með ábendingar um það sem betur má fara og hvað má til varnar verða vorum sóma.

Þar sem dagskrá og umgjörð Flokksráðsfundarins verður ekki hnikað úr þessu, þá verður að skipuleggja fundi Sjálfstæðisfólks um allt land strax í haust til að fara vel ofan í með hvaða hætti megi endurvinna það traust og fylgi sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði á árum áður. Það má ekki dragast og þess verður að gæta að hinn almenni flokksmaður hafi þar svigrúm til að segja sína meiningu, en þurfi ekki enn og aftur að sitja undir síbylju þingmanna og ráðherra flokksins og fá síðan fyrir náð og miskun þann eina valkost að bera upp fyrirspurnir.

Það er verk að vinna og mæling sem sýnir svona fylgistap þarf ekki endilega að þýða að þar sé komið í endanlegt lágmark. Í því efni sem öðru þá veldur hver á heldur og með hvaða hætti er brugðist við. Það verður að bregðast við strax til að endurvinna traust okkar kjósenda.

Seinna er ekki valkostur.  

Skildu eftir skilaboð