Helga Dögg Sverrisdóttir skrifar:
Ekkert gengur í kjaraviðræðum grunnskólakennara. Það dylst engum sem fylgist eitthvað með. Formaður Félags grunnskóla hefur falið formanni Kennarasambandsins samningsumboð grunnskólakennara.
Nú þegar kjaradeildan er hjá ríkissáttasemjara má hugsa tvennt í stöðunni. Félagið er við það að semja eða íhugar verkfallsboðun.
Verði blásið til verkfalls eru tveir möguleikar.
Allsherjarverkfall þar sem allir grunnskólakennarar fara í verkfall. Góður kostur? Fer eftir því hvernig á það er litið.
Hinn kosturinn er skæruverkföll en bloggari kynntist þeim fyrst hjá Sjúkraliðafélagi Íslands. Skæruverkföll eru þannig að ákveðið stig fer í verkfall og helst þar sem það bítur mest. Í grunnskólanum er það yngsta stigið. Síðan væri hægt að hafa daga á stigunum.
Hvort grunnskólakennarar séu tilbúnir í verkfallsaðgerðir er fyrst vitað þegar kosning fer fram. Fari kennarar í verkfall þá er það röskun á námi nemenda en þannig eru verkföll. Markmiðið er að valda sem mestri röskun.
Fyrir nokkrum árum þótti kennarastéttinni óhugsandi að fara í verkfall, byggt á reynslu fyrri áratuga. Nýliðun í stéttinni er mikil, yngra fólk komið í grunnskólann og leiðbeinendur fleiri. Þessi samsetning gæti gefið annars konar niðurstöðu en fyrir fáeinum árum.
Hvað sem öllu líður, þá verður fróðlegt að fylgjast með á komandi vikum. Bloggari vonar að hann hafi rangt fyrir sér hvað verkfallsboðun varðar og að kjarasamningur sé handan við hornið.