Verður Kemi Badenoch næsti leiðtogi breskra íhaldsmanna?

frettinErlent, Ingibjörg Gísladóttir, StjórnmálLeave a Comment

Ingibjörg Gísladóttir skrifar:

Stórsigur Verkamannaflokks Breta í kosningunum 4 júlí í sumar kallaði á nýja forustu Íhaldsflokksins og nú, 9. október, standa tveir frambjóðendur eftir: Kemi Badenoch og Robert Jenrick en James Cleverly er úr leik eftir atkvæðagreiðslu þingmanna flokksins og nú er það flokksmeðlima að velja á milli þeirra tveggja er eftir standa. Úrslitin verða tilkynnt hinn 2. nóvember.

Búist var við að Cleverly kæmist áfram því hann hafði flest atkvæði þeirra þriggja fyrir útsláttarkosninguna en þess í stað er Badenoch efst með 42 atkvæði. Hvort þeirra Jenrick eða Badenoch verður næsti leiðtogi flokksins fer trúlega eftir því hvoru þeirra er betur talið treystandi til að takast á við þau helstu vandamál er Bretar standa frammi fyrir: slæmt ástand heilbrigðiskerfisins, slakt efnahagsástand, húsnæðismálin og ástand innflytjendamála sem reyndar hangir allt saman.

Samkvæmt Sputnik dvelja í Bretlandi 745,000 ólöglegir innflytjendur, eða 1 af hverjum 100 íbúum, fólk sem annað hvort er á bótum frá ríkinu eða í svartri vinnu, fólk sem skilar engu til samfélagsins - íþyngir því bara. Hinn 5. október skráðu yfirvöld komu 973 hælisleitenda með 17 uppblásnum bátum. Margir, eða 224,742, eru sagðir í fríu fæði og húsnæði á meðan þeir bíða eftir afgreiðslu hælisumsóknar sinnar. Fyrir nokkrum árum var það í fréttum að stór hluti hælisleitenda væri frá Albaníu og borguðu þeir smyglurum stórfé fyrir að vera fluttir með báti yfir Ermarsundið í stað þess að sækja um 180 daga vinnuvísa og panta sér ódýrt flug. Því ætti það ekki að koma á óvart að margir Albanir hafi komist í kast við lögin, en skv. Telegraph er einn af hverjum 50 Albönum í landinu í fangelsi og eru þá þeir sem hafa fengið breskan ríkisborgarrétt undanskildir.

Bretar losi sig undan áhrifavaldi Mannréttindasáttmála Evrópu

Bæði Badenoch og Jenrick telja það æskilegt að Bretar losi sig undan áhrifavaldi Mannréttindasáttmála Evrópu en Priti Patel hafði kvartað sáran undan því að mannréttindasamtök beittu öllum brögðum til að halda hælisleitendum í landinu. Sem dæmi um vinnubrögðin má nefna mál hins albanska Ardit Binaj sem hafði verið vísað úr landi eftir að hafa afplánað hluta dóms fyrir innbrot. Nokkrum mánuðum síðar var hann kominn aftur, þrátt fyrir endurkomubann og á grundvelli þess að eiga kærustu sem hafði dvalarleyfi og barn að auki þá fékk hann að vera því það var talið brjóta gegn rétti hans til fjölskyldulífs að senda hann aftur úr landi.

Kynnast má skoðunum Kemi Badenoch í grein í Telegraph þar sem hún svarar því af hverju Íhaldsmenn hafi ekki takmarkað innstreymi fólks eins og þeir hafi stöðugt lofað. Hún segir að í fyrsta lagi sé ekki nóg að fela embættismönnum verkefnið. Margir þeirra hafi unnið gegn þeirri áætlun.  Í öðru lagi hafi Innanríkisráðuneytið eitt átt að sjá um málið en aðrar stjórnsýslustofnanir kallað eftir meiri innflutningi fólks í þeirri trú að það yki hagvöxt og í þriðja lagi þori menn ekki að ræða þau menningaráhrif er gestirnir beri með sér.

Innflytjendur virði breska menningu

Hún segir að Bretar verði að krefjast þess að innflytjendur virði breska menningu og hefðir en reyni ekki að breyta henni. Áætlun um innflytjendamál hljóti að byggjast á þrem grunnatriðum: fjölda þeirra er koma (mega ekki vera fleiri en innviðirnir þoli), menningu innflytjendanna sem skipti jafnvel meira máli og vilja þjóðarleiðtoga til að stjórna. Menning felist ekki bara í matarhefðum og klæðnaði og sumar hefðir innflytjenda séu ósamrýmanlegar þeim bresku - ekki sé öll menning jafn rétthá. Hún furðar sig á hve margir nýjir innflytjendur hati Ísraelsríki. Slík viðhorf eigi ekki heima í Bretlandi. Bretland sé heimili þeirra er þar búa og innflytjendur verði að virða þær reglur er þar gilda. Að vera breskur ríkisborgari feli ekki bara í sér að hafa breskt vegabréf, því fylgi einnig skyldur gagnvart ríki og þjóð.

Badenoch segir að þörf sé á traustri forystu. Loforð um að tempra innstreymi fólks eða segja sig frá Mannréttindasáttmála Evrópu hafi reynst innantóm en hún hafi sýnt að hún framkvæmi það sem hún lofi. Sem Viðskiptaráðherra hafi hún í desember 2023 séð til þess að lög Evrópudómstólsins séu ekki lengur æðri breskum lögum og losað Breta við  4,000 óþarfar Evrópusambandsreglugerðir í leiðinni. Hún er rísandi stjarna, bráðgreind, óhrædd við að segja sína skoðun og algjörlega laus við að vera vók, enda hefur hún komist til metorða fyrir eigin verðleika en ekki sakir kyns eða kynþáttar.

Skildu eftir skilaboð