Geir Ágústsson skrifar:
Íslendingar eru meðlimir í Sameinuðu þjóðunum, NATO, OECD, eiga hlut í Alþjóðabankanum og óteljandi öðrum alþjóðastofnunum, aðilar að EES samningnum við Evrópusambandið, aðilar að Schengen-samningnum, hafa gert ógrynni samninga við önnur ríki og eflaust er ég að gleyma einhverju. Gleymum svo ekki dellumálum, eins og Parísarsamkomulaginu.
Sjálfsagt er að endurskoða allt þetta með reglulegu millibili. Er viðkomandi aðild að gagnast hagsmunum Íslendinga eða ekki? Er ávinningurinn meiri en kostnaðurinn, fyrirhöfnin og valdaframsalið?
Það má færa rök fyrir því að slík endurskoðun sé svo sannarlega við hæfi núna, og þá sérstaklega á tvennu:
- Schengen-samningnum
- NATO
Um leið er kominn tími til að skoða alvarlega hvernig Íslendingar eigi að nálgast hið hratt stækkandi BRICS samstarf sífellt fleiri ríkja. Á að hunsa það? Opna á viðræður? Vona að það fjari út? Krossleggja fingur og vona að heimurinn endurskipuleggi sig ekki algjörlega án aðkomu Vesturlanda og skilji þau jafnvel eftir í hagvexti og viðskiptum?
Að gera ekkert - hvorki endurskoða né skoða - er varla í boði. Eina utanríkisstefna Íslands virðist vera að renna lengra í fangið á Evrópusambandinu og fylgja að öðru leyti í einu og öllu utanríkisstefnu Bandaríkjanna sem velja hvaða skærur á milli ríkja skipta máli og hver ekki.
Heimurinn er að breytast hratt. Þeir sem fylgjast ekki með sitja fastir í ónýtum stofnunum sem framleiða meira af pappír en lausnum og hverfa að lokum undir þykkt lag af ryki.