Óheillaráð Össurar – Svandís úti í horni

frettinInnlendarLeave a Comment

Björn Bjarnason skrifar:

„Þarna fór Össur út af sporinu og síðan Svandís með honum eins og birtist í sjónvarpsumræðum flokksformanna að kvöldi mánudagsins 14. október.“

Össur Skarphéðinsson, hollvinur Ólafs Ragnars Grímssonar, tók að sér ráðgjöf til Svandísar Svavarsdóttur í pistlum á Facebook eftir að Bjarni Benediktsson kynnti áform sín um að rjúfa þing og boða til kosninga 30. nóvember.

Össur sagði í fyrsta pistli að Svandís hefði búið „til mjög einfalt plott sem fólst í að slíta ríkisstjórninni á hentugum tíma fyrir VG og keyra svo í kosningar undir því flaggi að VG hefði steypt undan Sjálfstæðisflokknum“. Össur sagði þetta sýna að Svandís hefði verið „slegin algerri skákblindu“. Bjarni hefði ekki átt annan kost en að rjúfa stjórnarsamstarfið. Atburðarásin sem Svandís hratt af stað hefði ekki aukið líkur á að VG næði manni á þing. „Ekki græt ég mig í svefn útaf því ...“ voru lokaorð fyrsta pistilsins.

Össur hugsaði málið og í næsta pistli sagði hann Svandísi eiga leik í stöðunni. Það væri „algerlega“ á hennar valdi hvort Bjarni yrði forsætisráðherra í kosningabaráttunni. Ósk Bjarna um þingrof væri ekki sama og lausnarbeiðni fyrir ríkisstjórnina, án hennar yrði engin starfsstjórn.

Össur sagði að Svandís ætti að draga VG formlega út úr ríkisstjórninni sem um leið tapaði meirihluta sínum á þingi. Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar félli og forseti Íslands yrði að fara í viðræður við leiðtoga allra flokka og kanna hver þeim þætti „best fallinn til að leiða starfsstjórn fram yfir kosningarnar“.

Þarna fór Össur út af sporinu og síðan Svandís með honum eins og birtist í sjónvarpsumræðum flokksformanna að kvöldi mánudagsins 14. október þegar hún afhjúpaði rangan skilning sinn á hugtakinu starfsstjórn og endurtók vitleysuna úr Össuri um starfsstjórn undir nýjum forsætisráðherra.

Mánudaginn 14. október fagnaði Össur í þriðja pistli sínum að Svandís hefði sagt skýrt í samtali við forseta Íslands „að hún gæti vel hugsað sér bráðabirgðastjórn þar sem Sigurður Ingi, formaður Framsóknarflokksins, yrði forsætisráðherra. „Það var viturlegt af henni,“ sagði Össur og gaf forseta Íslands þau ráð að fara að fordæmi Ólafs Ragnars sem hafnaði tilmælum Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar um þingrof árið 2016, daginn eftir hefði Sigurður Ingi verið orðinn forsætisráðherra.

Í þann mund sem Bjarni Benediktsson fór á fund forseta kl. 16.00 þriðjudaginn 15. október birti Össur pistil um stjórnskipulegar skyldur forseta Íslands og sagði að í ljósi orða Svandísar í sjónvarpsþættinum 14. október væri fjarri því sjálfgefið að forseti bæði Bjarna umsvifalaust um að veita forystu starfsstjórn.

Forseta væri stjórnskipulega skylt að ræða aftur við alla formenn áður en hún tæki ákvörðun um framhaldið annars gæti hún ekki ákveðið að Bjarni veitti starfsstjórn forystu. Bjarni yrði að fullvissa forsetann um að ráðherrar VG væru á þeirri stundu reiðubúnir til að sitja í slíkri starfsstjórn.

Afskipti Össurar eru dæmi um haldlaust frumhlaup og villandi málflutning. Minna skrif hans á ýmislegt sem segir í nýbirtum dagbókum Ólafs Ragnars um tilraunastarf hans til að auka afskipti forsetans af stjórnmálalífinu. Er fagnaðarefni að Halla Tómasdóttir ákvað að feta ekki í fótspor forvera síns að ráðum Össurar. Svandís Svavarsdóttir gerði það hins vegar og málaði sig og flokk sinn út í horn.

Skildu eftir skilaboð