Páll Vilhjálmsson skrifar:
Þórður Snær Júlíusson fyrrum ritstjóri Heimildarinnar og áður Kjarnans sækist eftir þingmennsku hjá Samfylkingunni. Þórður Snær er sakborningur í byrlunar- og símamálinu. Lögreglan felldi niður rannsóknina í lok síðasta mánaðar. Páll skipstjóri Steingrímsson kærir niðurfellinguna til ríkissaksóknara, samkvæmt frétt á Vísi. Kæran felur í sér að Þórður Snær er áfram sakborningur, ásamt fimm öðrum blaðamönnum, á meðan málið er á borði ríkissaksóknara.
Í niðurfellingu málsins sagði m.a. í yfirlýsingu lögreglunnar:
Þar er afstaða Lögreglustjóraembættisins á Norðurlandi eystra að allir sakborningar í málinu gætu hafa sýnt af sér atferli sem getur flokkast undir brot á framangreindum ákvæðum. [...] Það er mat Lögreglustjóraembættisins á Norðurlandi eystra að ekki hafi tekist að sanna hver afritaði símann, hvernig og hver afhenti öðrum upplýsingar um einkamálefni brotaþola.
Lögreglan telur sig hafa sönnun fyrir glæpum, byrlun Páls skipstjóra, stuldi á síma hans, afritun og ólöglega dreifingu á einkagögnum. Sakborningarnir sem hópur eru að öllum líkindum sekir en ekki tókst að heimfæra afbrot á einstaklinga. Þáverandi eiginkona skipstjórans hefur gengist við byrlun og símastuldi. Blaðamennirnir sex hafa neitað að tjá sig málsatvik í skýrslutöku lögreglu. Sími skipstjórans var afritaður á RÚV en fréttir með vísun í einkagögn Páls birtust í Stundinni og Kjarnanum, - ekki á RÚV. Áður en skipstjóranum var byrlað hafði Þóra Arnórsdóttir ritstjóri Kveiks á RÚV keypt síma til að afrita símtæki skipstjórans.
Ítarleg greinargerð fylgir kæru skipstjórans til ríkissaksóknara. Þar eru m.a. ný gögn sem varpa ljósi á tengingar milli sakborninga og forystu Samfylkingarinnar. Einn sakborninga, Aðalsteinn Kjartansson, var á lista flokksins í Suðvesturkjördæmi kosningarnar 2009. Aðalsteinn kærði til dómstóla er hann var boðaður í skýrslutöku hjá lögreglu í byrjun árs 2022. Héraðsdómur Norðurlands eystra tók kæruna fyrir. Dómarinn var Arnbjörg Sigurðardóttir, eiginkona Loga Einarssonar þingmanns og þá formanns Samfylkingar. Í gögnum með kæru skipstjórans er yfirlýsing vitnis sem segist hafa heyrt Arnbjörgu dómara ræða mál Aðalstein tveim vikum áður en það kom fyrir héraðsdóm. Í yfirlýsingunni segir að Arnbjörg
hafði fyrir 2. vikum áður fjallað um þetta mál á kaffistofu dómsins. Lýsti hún [Arnbjörg] sinni skoðun að lögreglan hefði ekki átt að boða sóknaraðila [Aðalstein] í skýrslutöku sem sakborning.
Almennt gildir að dómarar eigi ekki að taka afstöðu fyrr en þeir hafa kynnt sér dómsskjöl. Samfylkingarréttlæti er af öðrum toga, þar skiptir flokksskírteini meira máli en sannleikur, lög og réttur. Arnbjörg dæmdi Aðalsteini í vil, enda búin að ákveða það fyrirfram á kaffistofuspjalli. Landsréttur ómerkti úrskurð samfylkingardómarans og dæmdi að Aðalsteini væri skylt að mæta í skýrslutöku lögreglu.
Dæmið af Arnbjörgu flokksdómara sýnir að samfylkingarsiðferði hefur grafið um sig í réttarkerfinu. Verði Þórði Snæ úthlutað líklegu þingsæti á framboðslista Samfylkingar er ástæða til að óttast um grunnstoðir réttarríkisins.