Jón Magnússon skrifar:
Þingrof eru sem betur fer fátíð og til þess ætti ekki að grípa nema í brýnustu neyð þegar stjórnskipuleg óreiða er til staðar og ljóst, að starfhæf ríkisstjórn verði ekki mynduð.
Fyrsta þingrofið var 1931. Þá stóðu yfir umræður um vantraust á ríkisstjórnina, þegar þáverandi forsætisráðherra Tryggvi Þórhallsson snaraðist í ræðustól Alþingis utan dagskrár og las upp konungsbréf um að konungur féllist á tillögu forsætisráðherra um þingrof. Þing var þá rofið þegar í stað og þingmenn umboðslausir skv. þeirra tíma lögum. Mikil mótmæli brutust út í kjölfarið þar sem bæði Sjálfstæðismenn og Alþýðuflokksmenn fóru mikinn yfir þessu gerræði forsætisráðherra og aðför að lýðræðinu.
Þing hefur verið rofið nokkrum sinnum síðan en þá venjulega í sátt. Tvisvar hefur forseti ekki fallist á þingrofsbeiðni forsætisráðherra annars vegar Sveinn Björnsson árið 1950 og hins vegar Ólafur Ragnar Grímsson 2016.
Spurning er nú hvort að sú stjórnskipulega óreiða hafi verið til staðar sem réttlætti þingrof. Tæpast verður á það fallist og ekki var látið reyna á það hvort að hægt yrði að mynda aðra starfhæfa ríkisstjórn til loka kjörtímabilsins. Að mörgu leyti var eðlilegt að sá möguleiki yrði kannaður áður en fallist var á þingrof. Hitt kom þó til, að margir stjórnarandstöðuflokkar m.a.Samfylking, Viðreisn, Miðflokkur og Flokkur fólksins voru samþykkir þingrofinu og þurfti þá ekki fleiri blöðum um það að fletta að rífur meirihluti þingsins studdi þingrof þó ekki hafi verið látið á það reyna með atkvæðagreiðslu.
Hvað sem öðru líður þá hefur stjórnarfarinu í landinu hvað þingrof varðar breyst mikið til batnaðar. Árið 1931 gat Tryggvi Þórhallsson forsætisráðherra laumupokast með samskipti sín við kónginn um þingrof og tilkynnt síðan Alþingi orðinn hlut nánast með sömu orðum og Oliver Cromwell áður þegar hann leysti um breska þingið.
Snautið þið heim þið hafið ekkert hér að gera. Þá urðu þingmenn umboðslausir um leið og þingrofið var samþykkt og það tók gildi árið 1931 um leið og forsætisráðherra hafði lokið ræðu sinni og þingforseti tilkynnti síðan í beinu framhaldi að þingið væri rofið.
Sem betur fer höfum við gengið til góðs í þessum efnum þannig að nú verður að telja að reglan sé sú, að það sé ekki komið undir geðþóttaákvörðun forsætisráðherra eins hvort þing verður rofið eða ekki. Fleiri þurfi um það að véla.