Stefán á Glæpaleiti í skjóli Framsóknarflokksins

frettinFjölmiðlar, Innlent, Páll Vilhjálmsson, StjórnmálLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Stefán Eiríksson útvarpsstjóri fékk endurráðningu stjórnar RÚV með minnsta mögulega mun. Fjórir af níu manna stjórn vildu auglýsa stöðuna. Fimm studdu Stefán til stjórna áfram vettvangi afbrota; afritunar á einkasíma sem fenginn var með byrlun og stuldi. Fulltrúi Framsóknarflokksins réð úrslitum.

Stefán kom til starfa á ríkismiðlinum árið 2020. Árið eftir hófst byrlunar- og símamálið. Páli skipstjóra Steingrímssyni var byrlað til að blaðamenn fengju aðgang að síma hans. Andlega veik þáverandi eiginkona skipstjórans færði fréttamönnum RÚV Samsung-síma skipstjórans síðdegis 4. maí 2021. Rétt fyrir byrlun keypti Þóra Arnórsdóttir ritstjóri Kveiks Samsung-síma, samskonar og skipstjórans, sem var til reiðu er veika konan mætti með feng sinn. Símreikningur Þóru og RÚV fyrir símann í apríl var 692 kr. Á meðan afritun fór fram lá skipstjórinn í öndunarvél á gjörgæslu Landsspítala í Fossvogi, steinsnar frá Efstaleiti.

RÚV birti enga frétt upp úr síma skipstjórans. Það gerðu aftur jaðarmiðlarnir Stundin og Kjarninn sem voru í leynilegu samráði með ritstjórn Kveiks á RÚV. Byrlun og stuldur eru brot á almennum hegningarlögum. Leynilegt samráð fjölmiðla um að ein ritstjórn skipuleggi aðdrætti, sæki með ólögmætum hætti heimildir fyrir fréttum, en sendi öðrum fjölmiðlum efnið til birtingar er beinlínis játning á glæp. Ef allt hefði verið með felldu, engin afbrot og ekkert siðleysi, hefði RÚV birt fréttirnar upp úr síma skipstjórans en ekki flutt þýfi fengið með byrlun á milli fjölmiðla.

Stefán lokaði augunum fyrir augljósum afbrotum undirmanna sinna. Eftir að lögreglurannsókn hófst tók útvarpsstjóri til við að losa sig við helstu málsaðila. Rakel Þorbergsdóttir fréttastjóri tilkynnti starfslok í nóvember 2021; um áramótin 2021/2022 hætti Helgi Seljan og í febrúar 2023 lét Þóra Arnórsdóttir skyndilega af störfum - eftir að uppvíst varð um kaup hennar á Samsung-símanum í apríl 2021.

Stefán hélt lengst hlífiskildi yfir Þóru Arnórsdóttur. Úrslitaatkvæði yfir endurráðningu Stefáns átti Silja Dögg Gunnarsdóttir fulltrúi Framsóknarflokksins og formaður stjórnar RÚV. Silja Dögg er samstarfsmaður Svavars Halldórssonar eiginmanns Þóru. Þau starfa saman hjá Algalíf. Silja Dögg er fyrrum þingmaður Framsóknarflokksins. Framsóknarmenn eru löngum liðtækir í spillingunni. Í baráttunni um aðgengi að dagskrárvaldi RÚV munar um að hafa öll ráð útvarpsstjóra í hendi sér.

Niðurstaða lögreglurannsóknar staðfestir að afbrot voru framin á Efstaleiti:

Í málinu liggur fyrir að sakborningur sem náði síma af brotaþola kveðst hafa afhent fjölmiðli símann þar sem síminn var afritaður. [...] Sakarefni samkvæmt 228. og 229. gr. alm. hgl. lýtur að brotum á friðhelgi einkalífs meðal annars með því að hnýsast í, afrita, sýna, skýra frá, birta eða dreifa í heimildarleysi skjölum, gögnum, myndefni, upplýsingum eða sambærilegu efni um einkamálefni viðkomandi. Þar er afstaða Lögreglustjóraembættisins á Norðurlandi eystra að allir sakborningar í málinu gætu hafa sýnt af sér atferli sem getur flokkast undir brot á framangreindum ákvæðum.

Viðbrögð Stefáns útvarpsstjóra, að láta róa fréttamenn tengda byrlunar- og símamálinu, sýna ótvírætt að hann er vel meðvitaður um að afbrot voru framin á Efstaleiti vorið 2021. En Stefán hefur ekki lyft litla fingri til að upplýsa aðild starfsmanna RÚV að alvarlegum afbrotum. Er Stefán þó fyrrum lögreglustjóri og ætti að bera lágmarksvirðingu fyrir lögum og reglu.

Á Glæpaleiti er eitrað andrúmsloft óupplýstra glæpa. Stjórn RÚV gat loftað út og auglýst stöðu útvarpsstjóra. En, nei, meirihluti stjórnarinnar taldi réttast að Stefán stýrði áfram vettvangi óupplýstra afbrota. Aðrir hagsmunir en almannahagur ráða ferðinni hjá meirihluta stjórnar RÚV.

Skildu eftir skilaboð