Geir Ágústsson skrifar:
Fyrir utan ráðhús Reykjavíkur, höfuðstaðs Íslands, mun fáni Úkraínu blakta um alla framtíð eða „þar til Úkraína hefur sigrað“ eins og borgarstjóri orðar það.
Ekki fánar annarra ríkja sem eru í átökum og að eiga við innrás. Ekki fáni Armeníu, Kúrda, Palestínu, Líbanon eða Tævan.
Ekki fánar sem tákna samstöðu með fjölskyldum sem hafa séð á eftir heilu rútunum fullum af börnum í hendur mannræningja í Afríku, kvenna sem eru neyddar til að hylja á sér hár og líkama í Miðausturlöndum eða samkynhneigðra sem róttækir múslímar varpa fram af húsþökum.
Nei, fáni Úkraínu, eins spilltasta ríkis Evrópu og þótt víðar væri leitað, þar sem er nýbúið að afnema lýðræðið í raun, takmarka notkun á tungumáli stærsta minnihlutahópsins í ríkinu, ofsækja trúarsamfélög og ræna ungum mönnum úti á götu og senda á víglínur. Þar sem málfrelsið er takmarkað, fjölmiðlar eru strengjabrúður og ríkinu stjórnað með tilskipunum.
Vissulega ríki sem rússneskir hermenn eru að hakka í sig, eitt þorp í einu, en ekki ríki engla og dýrlinga.
Vissulega ríki þar sem almennir borgarar þurfa hjálp og aðstoð, en ekki ríki með hreinan skjöld.
Af hverju fær Úkraína alla þessa athygli eða Tjetjenía fékk að sigla sinn sjó á sínum tíma?
Var ekki nóg af peningaþvottavélum vestrænna milljarðamæringa og stjórnmálamanna í Tjetjeníu? Ekki nóg af ólöglegum rannsóknarstofum? Ekki nóg af tilraunastofum í leynilegu braski?
En heyrðu nú mig! Ef Rússar fá yfirráð yfir Austur-Úkraínu munu þá rússneskir hermenn ekki halda áfram og labba inn í Vestur-Úkraínu og loks Pólland? Eflist Pútín ekki í mikilmennskubrjálæði sínu? Er ekki hjarta Evrópu í hættu? Það vantar ekki samsæriskenningarnar en þær réttlæta ekkert og flækja jafnvel bara myndina.
Fáni Úkraínu mun sennilega verða tekinn niður þegar mönnum dettur í hug að setjast niður og ræða ástand Austur-Úkraníu fyrir alvöru. Kannski er Austur-Evrópa sem sjálfstætt ríki friðsælasta lausnin sem dregur úr kúgun íbúanna, eða aukið sjálfræði eins og Minsk-samningarnir á sínum tíma gengu út á en enginn hafði fyrir að virða. Kannski að deila kökunni eftir niðurstöðum íbúakosninga sem alþjóðasamfélagið fær að fylgjast með og getur þar með treyst á. Það hlýtur að vera valkostur við stríð sem menn fara að fá áhuga á.
En að moka endalausum skrokkum, vopnum og peningum í hakkavélina er engin lausn, og að flagga fyrir slíkum áætlunum engin manngæska.
One Comment on “Gaman að láta klappa fyrir sér”
Á hvaða vegferð er Íslendingar að fara með þessari handónýtari starfsstjórn og fráfarandi ríkisstjórn… Er stríð það sem herlaus þjóð vill?? Ef fólk vill það þá skal það kjósa þannig í komandi kosningum? Hvað vill almennur Íslendingur? frið eða stríð? Veljið rétt þið fáið ekki margar tilraunir.