Sjana Rut tónlistar- og listakona, gaf út plötuna Raunheimar þann 25.október síðastliðinn.
Platan inniheldur 12 lög er hefur að geyma samansafn af sögum fólks sem hún hefur kynnst á lífsleiðinni ásamt hennar eigin lífsreynslu. Eins og nafnið gefur til kynna að þá eru raunheimar innblástur að útgáfunni og því allt sannsögulegt.
Undanfarin ár hefur Sjana verið með þessa hugmynd í maganum, að segja sögur fólks sem hún hefur kynnst á lífsleiðinni og sem henni þótti áhugaverðar, sérstaklega þær sögur sem þykja tabú í dag. Þessar sögur endurspegla mannlífið, þær eru bæði átakanlegar og drungalegar en þær veita líka von og innblástur. „Rétt eins og lífið sjálft getur verið að þá endurspeglast það í þessum sögum, bæði það fallega og ljóta sem gerist í raunheimi,“ segir Sjana.
Sögur að handan er opnunarlagið á plötunni, fyrstu lögin á plötunni fjalla um dauðann á einn eða annan hátt og er því „Sögur að handan“ eins konar opnun inn í þann kafla.
Lagið er drungalegt og fjallar um það sem við sjáum ekki.
Annað lagið á plötunni heitir Eftirsjá, það fjallar um sjálfsvíg og hugarheim viðkomandi sem tekur eigið líf; eins konar bréf að handan en skilaboðin eru ljúfsár og full af kærleik.
Lagið Ástin segir frá ást á milli tveggja einstaklinga en hún á sér stað á vægast sagt undarlegum og þungum tímum. Kona kynnist manni á meðan hún er í þungu ofbeldissambandi og verða þau óvænt ástfangin en þessi ást kemur til með að bjarga lífi hennar.
Öll lög og textar eru samin af tónlistarkonunni en platan var mestmegnis hljóðrituð/tekin upp í Stúdíó Paradís og þaðan af í Abbey Road Studios.
Plötuna er hægt að hlusta í heild sinni hér neðar og á Spotify.