Byrlunar- og símamálið í sænska útvarpinu

frettinInnlendar, Páll VilhjálmssonLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Fjölmiðlahneyksli skekur opinbera umræðu á Íslandi í mörg ár, segir í kynningu á sænskum útvarpsþætti á P1, sem frumfluttur var í gær. Sænski fréttamaðurinn Martina Pierrou vann þáttinn og kom til Íslands í maí í fyrra. Viðmælendur eru Þórður Snær Júlíusson, Helgi Seljan og Sigríður Dögg Auðunsdóttir formaður Blaðamannafélags Íslands annars vegar og hins vegar Þórður Gunnarsson talsmaður Samherja.

Þórður Snær er sakborningur í byrlunar- og símamálinu, Helgi tengist málinu og Sigríður Dögg er verjandi þeirra hjá Blaðamannafélaginu. En hvers vegna er Þórður Gunnarsson talsmaður Samherja viðmælandi? Samherja á ekki beina aðild að byrlunar- og símamálinu. Brotaþolinn er Páll skipstjóri Steingrímsson. Á sínum tíma vann skipstjórinn hjá Samherja en brotið var á honum persónulega.

Að undirlagi blaðamanna RSK-miðla, RÚV, Stundarinnar og Kjarnans, var Páli skipstjóra byrlað og síma hans stolið. Byrlarinn er andlega veik þáverandi eiginkona skipstjórans. Á meðan Páll skipstjóri var meðvitundarlaus tók eiginkonan síma hans og afhenti blaðamönnum. Þóra Arnórsdóttir ritstjóri Kveiks tók við símtækinu í höfuðstöðvum RÚV á Efstaleiti. Áður hafði Þóra keypt Samsung-síma, samskonar og skipstjórans, sem var til reiðu á Efstaleiti 3. mai 2021, er skipstjóranum var byrlað. Á RÚV var sími skipstjórans afritaður. En Þóra og RÚV birtu engar fréttir með vísun í gögn úr símanum. Fréttirnar birtust samtímis í Kjarnanum og Stundinni þann 21. maí 2021, tæpum þrem vikum eftir byrlun og stuld. RSK-blaðamenn hafa aldrei gert grein fyrir aðkomu sinni að málinu. Þetta er byrlunar- og símamálið í hnotskurn.

Hvers vegna er Þórður Gunnarsson talsmaður Samherja viðmælandi í sænska útvarpsþættinum en ekki Páll skipstjóri?

Jú, vegna þess að í meðförum sænska fréttamannsins Martina Pierrou er tveim málum slegið saman, Namibíumálinu og byrlunar- og símamálinu. Málin tengjast, en ekki á þann hátt sem Martina leggur upp með.

Namibíumálið er tveim árum eldra en byrlunar- og símamálið. Namibíumálið hefst um miðjan nóvember 2019 með alræmdum Kveiks-þætti á RÚV þar sem Helgi Seljan leiðir fram á sjónarsviðið Jóhannes Stefánsson uppljóstrara. Jóhannes er ógæfumaður sem sá um rekstur dótturfélags Samherja í Namibíu fyrir áratug. Hann var rekinn fyrir óreiðu í rekstri. Hefnd Jóhannesar var að játa á sjálfan sig stórfelldar mútur sem hann kvaðst hafa greitt fyrir hönd Samherja namibískum embættis- og stjórnmálamönnum. Þrátt fyrir ítarlegar rannsóknir sakamálayfirvalda í Namibíu og á Íslandi hefur ekki fundist arða af sönnunargögnum sem styðja frásögn Jóhannesar uppljóstrara og RÚV.

Sænski fréttamaðurinn Martina Pierrou talar ekki íslensku. Í útvarpsþættinum kemur ekki fram hvernig hún aflaði sér upplýsinga. Út frá heimildamönnum hennar má aftur álykta hvernig staðið var að verki. Þórður Snær er óopinber talsmaður RSK-blaðamanna allt frá nóvember 2021 er hann skrifaði grein sem markar upphaf málsvarnar blaðamanna. Greinin heitir Glæpur í höfði Páls Vilhjálmssonar. Þar neitar Þórður Snær að glæpir, byrlun, stuldur og afritun, hafi verið framdir. Einnig neitar hann að lögreglan sé með málið til rannsóknar. Allt séu þetta samsæriskenningar tilfallandi bloggara. Þrem mánuðum síðar varð Þórður Snær sakborningur í sakamálarannsókn ásamt undirmanni sínum á Kjarnanum, Arnari Þór Ingólfssyni, Þóru Arnórsdóttur á RÚV og Aðalsteini Kjartanssyni á Stundinni. Síðar bættust við á lista sakborninga Ingi Freyr Vilhjálmsson, þá á Stundinni nú á RÚV, og Arnar Þórisson á RÚV.

Helgi Seljan er annar viðmælandi sænska fréttamannsins. Hann fékk ekki stöðu sakbornings í byrlunar- og símamálinu. Vitað er þó að hann var í samskiptum við þáverandi eiginkonu skipstjórans. Helgi Seljan tengir saman þrjú mál þar sem RÚV herjar á Samherja; Seðlabankamálið, sem hófst 2012, Namibíumálið og byrlunar- og símamálið. Í sænska útvarpsþættinum er spiluð hljóðupptaka frá aðförinni að Samherja í Seðlabankamálinu. Sænski fréttamaðurinn stendur í þeirri trú að upptakan tengist Namibíumálinu. Einhver Íslendingurinn matar Martinu Pierrou fréttamann á fölskum upplýsingum. Það er háttur RSK-blaðamanna að falsa gögn, segja ósatt og blekkja. 

Meginásakanir Þórðar Snæs, Helga Seljan og Sigríðar Daggar formanns BÍ eru að blaðamenn séu ofsóttir fyrir það eitt að vinna vinnuna sína. Þórður Snær hefur áður leikið þennan leik. Hann sagði danska blaðamanninum Lasse Skytt, sem síðar var afhjúpaður sem falsfréttamaður, að lögreglan á Akureyri hefði sent sveit manna suður að sækja blaðmenn og flytja nauðuga viljuga norður yfir heiðar.

Önnur vörn RSK-liða er að lög um vernd heimildarmanna leyfi byrlun og stuld í þágu blaðamanna. Það er rangt. Engin lög leyfa að eitrað sé fyrir fólki og eignum þess stolið. Ekki heldur er heimilt að afrita einkasíma. Þórður Snær reyndi að verða þingmaður við síðustu kosningar, en tókst ekki eins og landsfrægt varð. Þingmenn setja landsmönnum lög; Þórður Snær lítur svo á að lög og siðir skuli ekki hamla honum að þjóna eðli sínu. 

Tilfallandi veit að sænski fréttamaðurinn Martina Pierrou fékk símanúmer og tölvupóstfang Páls skipstjóra þegar hún tók viðtölin í maí síðast liðnum vegna þáttarins sem var sendur út í gær á sænska ríkisfjölmiðlinum, P1. Sú sænska vildi ekki fá afstöðu skipstjórans til málsins. Ekki frekar en Lasse Skytt um árið. Páll skipstjóri afhjúpaði Lasse Skytt sem falsfréttamann fyrstur manna. Ef skipstjórinn má vera að því í önnum dagsins að senda línu á yfirmenn Martinu á sænska ríkisútvarpinu er ekki að vita nema frekari fréttir berist af Martinu og vinnulagi hennar.

Allir viðmælendur Martinu tala við hana ensku. Þremenningarnir úr röðum blaðamanna, Þórður Snær, Helgi og Sigríður Dögg hefðu þó sem hægast getað bent á Inga Frey Vilhjálmsson, meðsakborning Þórðar Snæs, sem er sænskumælandi. Var Ingi Freyr kannski á bakvið tjöldin að ,,hjálpa" Martinu að skilja málavöxtu? Ingi Freyr er fréttamaður á RÚV. Er væntanleg frétt frá honum sem byggir á ,,fréttaskýringu" Martinu um ofsótta blaðamenn á Íslandi?

Byrlunar- og símamálið er á borði ríkissaksóknara. Lögreglan hætti rannsókn málsins síðast liðið haust með sérstakri yfirlýsingu um að blaðamennirnir væru að öllum líkindum sekir, en ekki hefði tekist að sanna hvaða blaðamenn frömdu tiltekin afbrot. Páll skipstjóri kærði niðurstöðu lögreglu til ríkissaksóknara sem mun núna í janúar taka afstöðu til þess hvort lögreglurannsókn verði felld niður eða haldið áfram. 

Skildu eftir skilaboð