Geir Ágústsson skrifar:
Ég hlustaði nýlega á samtal Björns Jóns Bragasonar og Þórarins Hjartarsonar á hlaðvarpinu Ein pæling, og það var gott. Þarna eru tveir hugsandi menn að ræða djúpstæð vandamál við íslenskt samfélag sem þeim um leið þykir svo vænt um. Þeir fara dýpra en það sem fyllir huga okkar frá degi til dags, og ég leyfi mér að segja að ég sé sammála þeim báðum um allt sem þeir sögðu í þessu samtali. Sannarlega samtal sem ætti að taka víðar og lengra.
Þetta minnti mig um leið á að við fáum ekki endilega nauðsynlegt hráefni til að hugsa út frá með neyslu á hefðbundnum fjölmiðlum. Fjarri því. Ég tek lítið dæmi: Hugleiðingar Russel Brand, (yfirlýstir vinstrimaður svo því sé haldið til haga) um ástandið í Úkraínu. Á 10 mínútum sprautar hann inn í huga manns allskonar hliðum málsins sem við fáum varla að sjá.
Lærdómur minn? Að það sé nauðsynlegt að afla sér skoðana og upplýsinga frá mörgum uppsprettum til að geta myndað sér eigin, upplýstu, skoðun. Skoðanir sem eru eingöngu byggðar á þessum hefðbundnu fréttamiðlum er hægt að koma auga á mjög fljótt. Þar er heimurinn svart-hvítur og fellur vel að utanríkisstefnu Bandaríkjanna. Það getur vel verið að þú sért sammála því að skattar, utanríkisstefna Íslands og öll áhersla í skoðanamyndun eigi að falla fullkomlega að utanríkisstefnu Bandaríkjanna, en kannski ekki. Og hvernig veistu það? Þú stígur út fyrir rammann, ef þú nennir.
Það er auðvitað engin kvöð á þér að mynda þér upplýsta skoðun, eða eigin skoðun hvort sem hún er upplýst eða ekki. Þú kýst jú fulltrúa og treystir á blaðamenn, ekki satt?
Þú veist þá væntanlega að þú ert að tortíma loftslagi Jarðar með tilvist þinni og lífsháttum, og að eina vandamál heimsins eru nokkrir vondir kallar í Asíu, Miðausturlöndum og Asíu sem dansa ekki í takt, ekki satt?
En hafir þú áhuga á hlið sem er önnur og vissulega til þá vona ég að við getum átt samtal. Og nei, það þýðir ekki að þú gerist Pútín-sleikja eða kynþáttahatari og afneitar vísindum. Þvert á móti. Þú byrjar kannski að hata minna og elska meira. Væri það ekki eitthvað?