LGB teymið var stofnað fyrir ári síðan af hópi samkynhneigðra og tvíkynhneigðra einstaklinga á Íslandi. Mörg okkar höfum tileinkað líf okkar að stórum hluta mannréttindabaráttu og fögnum við innilega þeim sigrum sem hafa verið unnir í baráttu sam- og tvíkynhneigðra fyrir borgaralegum réttindum og því að vera álitin eðlilegur og viðurkenndur hluti íslensks samfélags.
Að okkar mati er Ísland öruggur staður þar sem allt fólk fær að lifa, starfa og elska að vild. Þó erum við fullmeðvituð um að mun auðveldara er að taka skref aftur á bak en fram á við. Því erum við hér samankomin til að fagna litlum og stórum sigrum, en jafnframt til að tryggja að réttindum okkar og hagsmunum sé viðhaldið.
Undanfarið höfum við orðið vör við orðræðu innan svokallaðs hinsegin samfélagsins á Íslandi, lagasetningar frá þjóðþinginu okkar og hnignun í möguleikum okkar til að koma saman sem fólk sem laðast að öðru fólki af sama kyni. Þetta teljum við ógna hagsmunum okkar og tilveru, sérstaklega veruleika samkynhneigðra kvenna. Til dæmis virðist þykja sífellt sjálfsagðara að tala um að fólk sem laðast einungis að sama kyni sé litað af fordómum, lærðri hegðun og kynjatvíhyggju.
Við teljum þessa orðræðu ekki til þess fallna til að bæta stöðu okkar á neinn hátt og lýsir hún hreinlega andúð á samkynhneigð. Að sama skapi höfum við orðið vör við að mismunandi skoðanir á baráttumálum og baráttuaðferðum séu ekki vel liðnar innan hinsegin samfélagsins. Útilokun, einelti og ofbeldi gagnvart fólki sem er ekki með vinsælar skoðanir, eða tjáir sig með orðalagi eða hætti sem samræmist ekki vilja þeirra sem hæst hafa hefur snaraukist og það er eitthvað sem við getum ekki sætt okkur við þegjandi og hljóðalaust.
Sá sem þetta ritar hefur t.d. verið meinaður aðgangur að tengslaneti samkynhneigðra Íslendinga á Facebook í rúmt ár fyrir það eitt að viðra skoðanir og virkja tengsl við aðra sem eru sama sinnis og í sömu pælingum. Því teljum við mikla þörf fyrir þverpólitískan vettvang þar sem allar skoðanir og umræður eru leyfðar, svo lengi sem hagsmunir homma, lesbía og tvíkynhneigðs fólks eru hafðir að leiðarljósi.
Við erum nú í sambandi við þingmenn, stjórnmálaflokka, fjölmiðla og fleiri sem geta opnað á umræðuna sem hefur ekki mátt eiga sér stað. Við ætlum okkur að stöðva feluleikinn. Mannréttindamál eiga heima uppi á yfirborðinu, ekki í baktjaldamakki lyfjafyrirtækja, atvinnuaktívista og stjórnmálamanna í tilrauna-og gróðaskyni!
Frettin.is hefur gefið okkur vettvang til þess að birta seríu greina sem eru skrifaðar af LGB fólki, stuðningsmönnum, konum og öðrum sem hafa áhyggjur af núverandi stöðu sam-og tvíkynhneigðra, kvenna og barna. Við munum því með reglulegu millibili birta greinar þar sem margvíslegir vinklar verða dregnir fram í dagsljósið og við ætlum að skapa þá umræðu sem ekki hefur mátt eiga áður. Kyn skiptir máli. Staðreyndir skipta máli.
Mannréttindi allra skiptir máli.
Höfundur er Eldur Deville, talsmaður LGB teymisins og baráttumaður fyrir samkynhneigða.
One Comment on “LGB teymið stofnað vegna skoðanakúgunar”
Viðbjóður