Ákall um endurskoðun laga um kynrænt sjálfræði

frettinPistlar1 Comment

Aðsend grein:

Í júní á þessu ári kvörtuðu nokkrar konur í heilsulind í Los Angeles undan því að allsber karlmaður væri á svæði sem ætlað væri konum og börnum, en var sagt að þær ættu engan rétt á að kvarta því hér væri um transkonu að ræða. Næstu mánuðina var mótmælt við þessa heilsulind, Wi Spa í Koreatown. Sumir héldu fram rétti kvenna og barna til öryggis í almannarými en aðrir komu til að mótmæla transfóbíu. Enn aðrir komu til að slást, bæði Proud Boys og Antífa. Dag einn í júlí handtók lögreglan 40 manns sem höfðu kastað ýmsu lauslegu í hana eftir að hafa skotið táragasi og gúmmíkúlum að óeirðaseggjunum.

Síðar á árinu kom svo ákæra gegn „transkonunni“ fyrir ósiðlegt athæfi. Í ljós kom að „hún“ hafði þrisvar áður, fyrst 2002, gerst sek um að bera sig í návist kvenna og barna og þeirri yfirlýsingu að „hún“ væri transkona var því hafnað.

Á síðustu árum hefur transaktívistum víða á Vesturlöndum tekist að fá gamla kerfið þar sem menn þurftu að fara í gegnum ákveðið ferli til að fá kynskiptin viðurkennd aflagt. Á Íslandi varð það að lögum 2019 að fólk gæti breytt kynskráningu sinni með því einfaldlega að tilkynna um hana til Hagstofunnar. Hvaða karl sem er getur nú skráð sig sem konu þótt hann sé fúlskeggjaður með slátrið óskert. Sem konu, móður og Íslendingi mislíkar mér það af ýmsum ástæðum.

Í fyrsta lagi hættir hugtakið „kona“  og þar með kvenréttindi að hafa merkingu ef hvaða karl sem er getur eignað sér það og öll tölfræði um konur skekkist hvort sem hún tengist afbrotum, læknisfræði eða öðru. Er ég sjálfselsk að vilja ekki deila sjálfsmynd minni með hvaða karli sem er og að vilja ekki sjá konu eignað afbrot þegar afbrotamaðurinn er greinilega karlkyns?

Í öðru lagi þá misnota margir karlar þennan möguleika því þeir sjá sér hag í að vera í e-k hlutverkaleik og þykjast vera konur. Margir þeirra hafa meira að segja „komið út úr skápnum“ sem lesbíur. Miðlungs íþróttamenn geta nú skarað fram úr sem konur og mega jafnvel hafa hærra testosteronsmagn í líkamanum en þær til að keppa. Kynferðisbrotamenn hafa komist inn í kvennafangelsi erlendis og karlar sem hafa kynferðislegan áhuga á börnum inn á svæði sem þeim voru lokuð áður.

Stöku sinnum rata kynferðisbrot „transkvenna“ í fréttirnar, svo sem þegar Katie Dolatowsky réðst á 10 ára stúlku á kvennaklósetti í Skotlandi en á síðunni Trans Crime UK má sjá fjölmörg dæmi frá Bretlandi. Á tímum MeToo hreyfingarinnar er ekki eðlilegt að kynferðisbrotamönnum sé auðveldaður aðgangur að fórnarlömbum með því að þeir geti sjálfir skilgreint sig sem konur.

Í þriðja lagi er transaktívisminn skaðlegur samheldni fjölskyldna. Börn eru hvött til að hunsa vilja og ráðleggingar foreldranna en lúta yfirboði transsamfélagsins í staðinn þar sem þau fá stuðning og hvatningu til að gerast trans. Reynslan sýnir að margir sjá eftir kynskiptunum síðar meir. Mótmæli menn því að þriggja ára börn geti vitað að þau hafi fæðst í röngum líkama þá verða þeir fyrir aðkasti, a.m.k. hafa sést dæmi um það erlendis. Á Íslandi samþykkir löggjafinn að 15 ára unglingar geti breytt kynskráningu sinni upp á eigin spýtur.

Í fjórða lagi reyna transaktívistarnir að fá tungumálum breytt, svo þau verði kynhlutlausari. Á RÚV er ekki lengur kjörinn „maður ársins“ heldur „manneskja ársins“ og virðist það yfirlýst stefna RÚV að hætta að nota orðið „maður“ yfir bæði kynin. Samt á stofnunin að teljast verndari íslenskrar tungu. Hvað með orð eins og „mannkyn“ sem vísar greinilega til  heildarmengis mannvera (úps, annað vandamálaorð)?  Orð eins og „móðir“ og „faðir“ virðast ekki vel séð heldur. Víða erlendis hefur þessi stefna gengið lengra, svo ekki má tala um brjóstagjöf, heldur bringugjöf (chestfeeding) og ekki má lengur segja að konur hafi legháls; hvort tveggja orðið er talið of útilokandi fyrir þær konur sem upplifa sig sem karla.

Það að vera trans er ekki lengur ákvörðun fullorðins einstaklings eftir langa yfirlegu heldur er transsamfélagið nú fjöldahreyfing sem vinnur að því að ná sem flestum meðlimum til sín. Einna virkust er hún trúlega í Bretlandi þar sem J.K. Rowlings mætti ofstækisfullu hatri er hún gerði grín að því að „fólk“ hefði á klæðum, landi þar sem transkonur lesa fyrir börn á bókasöfnum bækur um dýr sem fædd eru í röngum líkama og þar sem  sjúkrahús í London hefur reynst fara árum saman offari í kynleiðréttingunum og fengið á sig dóm fyrir.

Fólkið sem veittist að Rowling og mætti hjá Wi Spa til stuðnings „transkonunni“ er svokallaðir félagslegir réttlætissinnar (Social Justice Warriors). Um er að ræða ný-marxíska hreyfingu þar sem í stað öreiga og auðvalds eru komnir kúgarar og undirokaðir. Einkenni hennar er að mönnum er skipt upp í fórnarlömb og kúgara. Kúgararnir eru fulltrúar hins meinta kapítalíska feðraveldis: karlkyns, hvítir og gagnkynhneigðir en fórnarlömbin konur, litaðir, fatlaðir, flóttamenn, fangar auk alls Regnbogahópsins. Samkvæmt kortum fórnarlambamenningarinnar er transfólk með hærri stöðu en t.d. samkynhneigðir og því fleiri hópum sem menn tilheyra því hærri er staða þeirra innan kerfisins. Fatlaðar lesbíur fá þannig tvöfaldan fjölda stiga. Leiðtogarnir gangast upp í hlutverki sínu og krefjast sérstakra íviljana í krafti fórnarlambsstöðu sinnar. Á Íslandi hefur transfólk krafist forgangs hvað geðheilbrigðisþjónustu varðar og haft það í gegn að þurfa ekki að borga fyrir kynskiptivottorð hjá Hagstofunni.

Það blasir við að löggjafinn hefur látið undan transaktívistunum án þess að spá í afleiðingarnar og án þess að gera sér (vonandi) grein fyrir að þeir eru hluti hreyfingar sem vill umturna vestrænum samfélögum.

Þessi mál þarf að ræða, sem önnur, og þar sem Facebook hefur haft sterka tilhneigingu til að leyfa engum nema  mér sjálfri að sjá pósta mína um þessi mál þá fagna ég framtaki Fréttarinnar.is. Opin umræða er nauðsynleg í lýðræðislegum samfélögum.


One Comment on “Ákall um endurskoðun laga um kynrænt sjálfræði”

Skildu eftir skilaboð