Geir Ágústsson skrifar:
Framundan eru forsetakosningar í Bandaríkjunum. Þar er í bili í framboði núverandi forseti sem er líklega með Parkinson-sjúkdóminn á háu stigi og hefur ekki ráðið neinu síðan hann var kjörinn í embættið. Núna er hafin einhver áætlun um að losna við hann án þess að þurfa eiga við forval innan flokks hans. Þess í stað verður handvalinn einhver gæðingurinn og honum rúllað inn.
Það er af þessari ástæðu að blásið var til kappræðna í júní frekar en í haust. Vitað var að Biden myndi klúðra þeim og með samstilltu ákalli fjölmiðla, í bland við einhverja áframhaldandi en sífellt minnkandi afneitun á ástandi hans, koma honum frá á einn hátt eða annan nógu seint til að flokksmenn geti ekki komið að tilnefningu staðgengils, en ekki of seint til að staðgengillinn nái nú að kynna sig fyrir kjósendum.
Eða svona hljómar ein samsæriskenningin sem mér finnst vera sannfærandi.
Sé hún rétt þá erum við með öðrum orðum stödd í miðju leikriti, vel skipulögðu, og fóðruð með molum sem eiga að leiða okkur að réttri niðurstöðu: Biden þarf að fara og í staðinn að koma einhver skelfing eins og ríkisstjóri Kaliforníu eða hver það nú er sem flokkseigendavélin er búin að velja.
Líklega hefur örvæntingin farið af stað í baklandi Biden þegar kom í ljós að sakfelling á Trump fyrir tæknilega gallaðar bókhaldsfærslur hafði öfug tilætluð áhrif: Fylgi Trump hefur haldist hátt og kosningasjóðir hans eru orðnir stærri en hjá Biden. Væri Biden að mælast hár í könnunum væri auðvitað engin ástæða til að skipta honum út sem strengjabrúðu.
Sú samsæriskenning að yfirvöld og valdamenn stundi ekki samsæri er röng. Í gangi er samsæri um að skipta Biden út á þann hátt að þeir sem í raun fara með völdin haldi áfram að fara með völdin.
Stundum eru leikrit svo vel hönnuð að áhorfendur bókstaflega lifa sig inn í söguþráðinn. Það virðist vera raunin núna. Eða hvenær ætla íslenskir fjölmiðlar að segja það sem allir vita frekar en að tala um hása forsetann?