Geir Ágústsson skrifar:
Kosningar til forseta Bandaríkjanna nálgast óðfluga. Þar munu takast á Trump fyrir hönd Repúblikana og fyrir Demókrata einhver sem tekur við af Biden þegar er búið að ýta honum til hliðar.
Undanfarnar margar kosningar hefur aðilinn sem tapar ásakað aðilann sem vinnur um kosningasvindl. Þegar Trump var fyrst kjörinn forseti áttu Rússar á einhvern undraverðan hátt að hafa staðið þar að baki. Þegar Biden var kjörinn var töluvert rætt um atkvæði sem bárust í pósti á seinustu stundu og mjög yfirgnæfandi á einn veg. Víða eru notaðar sérstakar kosningavélar sem er auðvelt að eiga við. Og svo er víða hægt að kjósa í Bandaríkjunum án þess að sýna svo mikið sem skilríki, hvað þá skilríki með mynd, sem býður upp á ýmsa möguleika.
Núna, og í auknum mæli, verður farið að undirbúa okkur til að samþykkja niðurstöður kosninganna án þess að spá mikið í kosningasvindli. Svolítil grein á Deutsche Welle er dæmi um slíkan undirbúning. Þar er farið yfir allar ásakanirnar og þær hraktar, þannig séð. Ekki mjög sannfærandi samt. Til dæmis er okkur sagt að í ríkjum sem krefjast engra skilríkja frá kjósendum séu mjög hörð viðurlög við því að villa á sér heimildir, og þetta kort sýnt.
Ljósbláu svæðin sýna ríki í Bandaríkjunum þar sem menn geta sem sagt labbað á kjörstað, sagt nafn og kannski einhvers konar kennitölu, fengið kjörseðil og kosið. Að þurfa sýna skilríki (jafnvel eitthvað með engri mynd) er talið óþarfi. Það eru jú ströng viðurlög!
En auðvitað er allt svona tal, nema ásakanir um að Rússar hafi aðstoðað Trump, bara bull og þvæla. Þessi boðskapur mun sennilega heyrast oftar og víðar eftir því sem nær dregur. Ef valdastéttinni, sem ræður í raun á bak við tjöldin, tekst að koma sínum manni í stór forseta þá má ekki efast um slíkt í augnablik. Meira spennandi verður að sjá hvað verður sagt ef Trump tekst að sigra, eins og allt stefnir í.
Verður það þá Kínverjum að kenna?