Björn Bjarnason skrifar:
Með einhverjum ráðum hefur tekist að telja fólki trú um að það eigi ekkert að skipta sér af skólamálum, það hafi ekkert vit á þeim.
Málefni grunnskólans verður að ræða utan hans og lokaðs hóps uppeldisfræðinga og kennara. Viðbrögð forstjóra menntamiðstöðvarinnar við ábendingum um að opna eigi upplýsingamiðlun um skólastarf eru með öllu óviðunandi. Þau sýna hve hættulegt getur verið að fela mikilvæg samfélagsmálefni sérstofnunum sem þykjast alltaf vita betur í stað þess að stjórnmálamenn séu kallaðir beint til ábyrgðar og krafðir svara um málaflokka sem undir þá falla.
Frá því 2018 hefur menntamálaráðuneytið í raun haft mat á árangri í grunnskólum í nefnd og nú er svo komið að allt er í óvissu um námsmat, hvernig það verður eða hvenær og námskrár eru sagðar óljósar eða óskiljanlegar.
Það má ímynda sér uppnámið í stjórnmálum og fjölmiðlum ef ástandið væri svona á einhverju öðru sviði þjóðlífsins. Til yrðu hópar sem þrýstu á aðgerðir, efndu til útifunda eða færu jafnvel með fána upp í Hallgrímskirkjuturn.
Með einhverjum ráðum hefur tekist að telja fólki trú um að það eigi ekkert að skipta sér af skólamálum, það hafi ekkert vit á þeim. Með meira samráði en áður sé verið að hanna eitthvert kerfi sem sé einstakt á alla mælikvarða. Menn eigi bara að þegja og bíða.
Þetta dugar ekki öllum. Vegna þess sem hér stóð í gær barst „þættinum“ bréf frá íslenskri móður grunnskólabarna. Hún hóf bréfið á þessum orðum:
„Það er sannarlega þarft að skrifa um stöðu menntamála á Íslandi. Takk fyrir það. Það er grafalvarleg staða uppi. Þetta er búið að vera mér áhyggjuefni um margra ára skeið. Verð að viðurkenna að mér finnst eins og börnin mín hafi losnað úr helsi eftir að hafa flutt hingað út og þau fá loksins tækifæri til að blómstra í skólanum: Það eru gerðar kröfur til þeirra, þau fá námsefni við hæfi, þau eru hvött til að skara fram úr, námsmat er skýrt og þau fá viðurkenningu fyrir góðan árangur.“
Í bréfinu segir að hér hafi heimanám verið forboðið, það hafi þótt „of mikið álag á börnin“. Þá er vitnað í orð reynds skólastjórnanda sem sagði að áður fyrr hefðu foreldrar haft reglubundið samband til að kanna stöðuna hjá börnum sínum, sérstaklega í aðdraganda samræmdra prófa. Nú hringi enginn, það biðji enginn um fund, það sendi enginn tölvubréf nema til að láta vita að börnin geti ekki sótt skólann. Þá séu viðurkenningar fyrir framúrskarandi námsárangur bannaðar.
Í viðræðum við kennara um undirbúning barna undir samræmd próf hafi komið fram að í skólanum væri engin áhersla á samræmd próf og því yrði enginn sérstakur undirbúningur vegna þeirra. Skólinn vildi ekki valda stressi hjá börnunum. Móðirin komst að því eftir krókaleiðum og fyrir kunningsskap að viðkomandi skóli kæmi illa út í samanburði við aðra.
Þegar foreldrar ræða þessi mál við skólafólk er þeim fljótt talin trú um að fræðingarnir viti betur hvað barninu sé fyrir bestu. Þess vegna hringir enginn lengur eða spyr í tölvubréfi um hvað gerist í skólanum, þess vegna er talið óþarft að hafa próf og þess vegna á skólakerfið að vera umlukið þagnarmúr.