Helga Dögg Sverrisdóttir skrifar:
Umræða um grunnskólamál hafa verið á síðum fjölmiðla og víðar undanfarið. Málefni sem kemur grunnskólakennurum við. Ekki heyrist orð frá Mjöll Matthíasdóttur formanni grunnskólakennara. Hún virðist hafa látið vald sitt og málfrelsi í hendur formanns KÍ, Magnús Þórs Jónssonar. Grunnskólakennarar líta ekki á hann sem leiðtoga sinn. Hann var skólastjóri og öll hans tjáning ber keim af því.
Fyrir um tveimur árum kusu grunnskólakennarar nýjan formann. Við fórum úr öskunni í eldinn. Bloggari studdi Mjöll Matthíasdóttur, hélt í einlægni að hún gæti haldið á keflinu. Annað hefur komið á daginn. Því miður er bloggari ekki einn um þá skoðun. Hins vegar er kennarastéttin meðvirk og lætur ekki í sér heyra frekar en fyrri daginn. Vona svo sannarlega að næstu formannskosningar snúist um hæfari einstakling en Mjöll sem hefur komið leiðinlega á óvart.
Kennarasamband Íslands er bákn. Um það er ekki hægt að deila. Margir í sambandinu eru haldnir utanlands þrá sagði einn kennari við mig. Á síðasta þingi var samþykkt að lækka félagsgjöldin. Báknið KÍ dregur lappirnar, ekkert gerist. Kennarar borga hátt félagsgjald og mætti lækka þó nokkuð. Formaður Félags grunnskólakennara virðist heldur ekki berjast fyrir sína stétt sem borgar meirihlutann í sambandinu. Heldur hinum félögunum uppi. Sameina á t.d. stjórnendafélögin innan sambandsins. Ekki heil brú í að það sé félag fyrir stjórnendur í grunn- og leikskólum. KÍ, eða Félag grunnskólakennara, heldur upp tveimur formönnum fyrir fámenna stétt.
Magnús Þór Jónsson formaður Kennarasambands Íslands skrifar grein á Vísi.is sem birtist í vikunni. Eins og venjulega þegar hann kemur fram á ritvöllinn er innihaldið rýrt. Í greininni er ekki rætt um vandann sem skólakerfið á við að etja. Sé það gert er það öllum öðrum að kenna en kennarastéttinni. Hér má hlusta á brot úr þætti um skólamál.
Hér má lesa grein um verðbólgu einkunna grunnskólanema sem formaður KÍ hafnar og sakar annan um að hafa rangt fyrir sér.
Formenn Félags skólastjórnenda og Félags grunnskólakennarar þegja þunnu hljóði, virðast hafa framselt málfrelsi sitt til formanns KÍ.