Skólakerfi í hafvillum

frettinBjörn Bjarnason, Innlent, Skólakerfið1 Comment

Björn Bjarnason skrifar:

Það er dæmigert að formaður KÍ hrópi nú: Róum í sömu átt! þegar enginn fær vitneskju um hver áttin er.

Á mbl.is er í dag (20. júlí) vitnað í umsögn Viðskiptaráðs Íslands um frumvarp mennta- og barnamálaráðuneytisins um breytingu á lögum um grunnskóla. Þar segir að ráðuneytið hafi eftirlátið einum hagsmunaaðila, Kennarasambandi Íslands (KÍ), mótun stefnu og aðgerða í íslensku grunnskólakerfi.

Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, birtir grein á Vísi fimmtudaginn 18. júlí undir fyrirsögninni Róum í sömu átt! og líkir þar ferð skólakerfisins frá 2018, sem ekki er enn lokið, við sjóferð þar sem allir eigi að róa í takt við það sem þeir vilja sem best vita.

Magnús Þór segir að árangurinn muni „liggja í því að leita í raddir sérfræðinganna sem vinna með börnum og ungmennum hvern dag“. Gæði menntunar liggi í öflugum sérfræðingahópi sem fái bakland og stuðning til að leysa þau verkefni sem við sem þjóð teljum að leiði til farsældar í framtíðinni. Lykilfólkið sem mestu ráði séu sérfræðingarnir í skólum landsins, þar liggi virðið.

Greinina má skilja á þann veg að einhver þáttaskil hafi orðið á tímum COVID-19 í afstöðu til þess hvernig staðið skuli að þróun íslenska skólakerfisins. Formaðurinn segir einnig: „Horft hefur verið til „árangurs“ út frá afmörkuðu sjónarhorni og þá helst í formi einhvers konar keppni, sem þó er óljóst hver er.“ Vill hann að frá þessu sé horfið.

Hér skal ekki dregið í efa að formaður Kennarasambands Íslands vilji sem besta skóla þótt hann geri lítið með mælanlegan árangur í starfi þeirra. Grein hans einkennist raunar af því óljósa ástandi sem ríkir í skólamálunum og má rekja til þess að spilin eru ekki lögð á borðið.

Í fyrrnefndri umsögn viðskiptaráðs segir að leyndarhyggja mennta- og barnamálaráðuneytisins flæki fyrir umbótastarfi og aðhaldi af hálfu einstakra skóla, sveitarfélaga, foreldra og almennra borgara.

Það er með ólíkindum að það sé talið skynsamlegt að loka á alla upplýsingamiðlun um árangur í starfi „80 þúsund einstaklinga frá barnsaldri upp til ungmenna á leið út í lífið“. Það eigi alfarið að treysta á ráð sérfræðinga sem fara á þeim hraða sem þeir sjálfir kjósa. Á meðan rekur bátinn til hafs og æ erfiðara verður að róa til lands að nýju.

Sé það rétt hjá viðskiptaráði að mennta- og barnamálaráðuneytið hafi útvistað málefnum grunnskólans til kennarasambandsins hefur formaður þess vísað málinu í hendur sérfræðinga og krefst nú hollustu við þá af félagsmönnum sínum og öllum almenningi.

Miðstöð sérfræðinganna lýtur stjórn forstjóra sem segir að halda verði upplýsingum leyndum, aðeins sé á færi sérfræðinga að skilja þær. Ráðuneytið leggur blessun sína yfir þá skoðun og einnig yfir að lyktir sérfræðivinnunnar dragist von úr viti.

Það er dæmigert að formaður KÍ hrópi nú: Róum í sömu átt! þegar enginn fær vitneskju um hver áttin er. Nauðsynlegt er að stefna sé mörkuð og hún samþykkt til að róið sé til sömu áttar.

One Comment on “Skólakerfi í hafvillum”

  1. Sammála Birni, grein Magnúsar Þórs er rýr að innihaldi og segir ekkert. Ekki það, ef menn hlusta á formann KÍ þá er þetta stíllinn sem hann hefur. Fullt af orðum-lítið innihald. Formaðurinn hefur auk þess tekið málfrelsi af Félagi grunnskólakennara, með leyfi þess formanns, og talar nú fyrir grunnskólakennara. Hann er ekki í forsvari fyrir grunnskólann, svo einfalt er það. Fleiri hafa vit á menntamálum en félagsmenn KÍ. Auðvitað eiga fleiri að koma að borðinu þegar menntunarstefna er mótuð til framtíðar. Auðvitað eiga að vera mælitæki í grunnskólanum sem treystandi er á, ekki huglægt mat eins og hefur verið í fjöldamörg ár og fjöldi allur af kennurum hundóánægðir með. Magnús Þór neitar verðbólgu í einkunnum án þess að benda á tölur máli sínu til stuðnings. Svo eru faglegir leiðtogar innan hvers skóla, ekkert heyrist frá þeim.

Skildu eftir skilaboð