Jón Magnússon skrifar:
Þjóðskáldið Jónas Hallgrímsson sagði í kvæði sínu "Ísland farsældar Frón", að það væri svo bágt að standa í stað og mönnunum munaði annað hvort aftur á bak ellegar nokkuð á leið. Í lok kvæðisins spyr skáldið: "Höfum við gengið til góðs götuna fram eftir veg?" og hann svarar að hluta.
Við þurfum alltaf að spyrja okkur þeirrar spurningar hvort við höfum gengið til góðs götuna fram eftir veg. Fámenn þjóð með sérstakt tungumál og menningu þarf stöðugt að gæta þess að ganga til góðs ef ekki á illa að fara.
Umræður undanfarna daga um skólamál og útkoma íslenskra nemenda í Pisakönnunum sýnir að það er mikið að í mennta- og skólamálum. Strax ætti að bregðast við og stíga á stokk og heita því að koma málum í viðunandi horf. Þetta virðast flestir sjá nema helst nokkrir talsmenn kennara. Þær úrtölu- og kyrrstöðuraddir mega ekki koma í veg fyrir að strax verði brugðist við og það gert sem gera þarf.
Á sama tíma skýrir forstjóri Barna og unglingastofu frá því að áhættuhegðun og ofbeldisbrotum barna og unglinga hafi fjölgað gríðarlega. Þar er líka ljóst að þar verður líka að bregðast við.
Stjórnmálamenn þjóðarinnar hafa látið reka á reiðanum og árum saman hefur ríkissjóður verið rekinn með miklum halla. Þegar forsætisráðherra tilkynnir á alþjóðavettvangi að við ætlum að styrkja Úkraínu um 4 milljarða á ári næstu fjögur árin, þá er allt það fé tekið að láni og börnunum okkar ætlað að borga það.
Börnunum, sem fá ekki tilhlýðilega menntun og eiga auk þess við margvísleg vandamál að stríða eins og kom fram hjá forstjóra Barna og unglingastofu.
Íslensk tunga á í vök að verjast og fari svo sem horfir og íslenska þjóðin horfir metnaðarlaus á það sem er að gerast án þess að bregðast við þá eru líkur meiri en minni að almennt samskiptamál á Íslandi árið 2050 verði enska en ekki íslenska.
Stöðugt fjölgar hælisleitendum, sem stjórnvöld hlutast svo til um að njóti forgangs umfram íslendinga hvort heldur sem er varðandi tannviðgerðir, læknishjálp, heyrnartæki,mat, húsaskjól o.fl. o.fl.
Hvers eiga efnalitlir Íslendingar að gjalda sem hafa ekki efni á að veita sér það sem hælisleitendur fá ókeypis frá ríkinu sem tekur það fé líka að láni. Útgjöld til þess málaflokks er svo gríðarlegur að grípa verður til allra þeirra aðgerða sem unnt er til að ekki eigi verr að fara.
Við erum ekki að ganga til góðs götuna fram eftir veg. Við verðum að bregðast við.
Einu sinni var sagt. Þegar býður þjóðarsómi þá á Ísland eina sál.
Nú býður þjóðarsómi að tekið verði á málum með öðrum hætti en gert hefur verið. Á sama tíma og við eigum að vera þjóð meðal þjóða, þá skiptir mestu að standa vörð um og sækja fram varðandi uppfræðslu barna- og unglinga og gæta að tungu og menningu þjóðarinnar, frelsi þjóðarinnar og fullveldi. Þar verðum við að sækja fram og varpa bruðlinu, ómennskunni og atlögu að þjóðlegum gildum fyrir róða.
Við eigum verk að vinna og það verður að hefjast strax.
One Comment on “Það er svo bágt að standa í stað”
Ísland farsælda frón
burt með r-ið