Pútín felldi Biden

frettinErlent, Páll Vilhjálmsson, PistlarLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Má ég kynna fyrir ykkur Pútín, forseta Úkraínu, sagði Biden Bandaríkjaforseti á leiðtogafundi Nató fyrir viku er hann bauð velkominn Selenskí, sem enn er forseti Úkraínu. Eftir mismælin fór af stað atburðarás sem leiddi til atburða gærdagsins, er Biden kvaðst ekki sækjast eftir endurkjöri. Opin spurning er hvort hann haldi út sem forseti til áramóta.

Mismælin voru tekin sem heilabilun Bandaríkjaforseta. Pólitíkin bilaði áður, löngu áður. Biden er handhafi sextán ára gamallar Úkraínustefnu Bandaríkjanna. Á leiðtogafundi Nató í Búkarest í Rúmeníu 3. apríl 2008 var Úkraína boðin velkomin í hernaðarbandalagið. Tilboðið var innheimta á sigurlaunum kalda stríðsins. Líkt og í frásögnum af mafíunni gat Úkraína ekki neitað tilboðinu. Með Úkraínu í Nató yrði Rússum settir úrslitakostir. Gerist vestræn hjálenda ellegar knésetjum við ykkur með góðu eða illu. Alþjóðastjórnmál 101.

Kalda stríðið felldi Sovétríkin og kommúnismann. Eftir stóð Rússland, sem hvorki var kommúnískt né auðveld bráð. Elítan í Bandaríkjunum var á annarri skoðun. Rússland er bensínstöð sem þykist þjóðríki, sagði öldungadeildarþingmaðurinn John McCain er Úkraínudeilan komst á annað og hættulegra stig með stjórnarbyltingu veturinn 2014.

Er Úkraínudeilan varð að fullveðja stríði fyrir hálfu þriðja ári var Biden kominn í Hvíta húsið. Hendur hans voru bundnar, stefnan mörkuð löngu áður en hann tók við embætti.

Aumingja Biden var settur í þá stöðu að fara með rulluna um að Úkraína væri bólverk vestræns lýðræðis og menningar og að sá illi Pútín stefndi að heimsyfirráðum. Ekkert er fjarri sanni. Úkraína sat í efstu sætum yfir spilltustu ríki veraldar norðan miðbaugs. Pútín er hvorki með metnað né herstyrk til að leggja undir sig víðáttur. Rússaher hefur yfirhöndina í Úkraínu en ekki má miklu muna. Stríð við Nató-ríkin væri rússneskt sjálfsmorð. Fyrir Úkraínudeiluna var ekkert talað um útþenslustefnu Pútín. En sjálfsagt telur Pútín Rússland eitthvað merkilegra en bensínstöð er bíði eftir yfirtökutilboði. Lái honum hver sem vill.

Í bandarískum stjórnmálum er Úkraínustríðið sem slíkt ekki stórmál. Aftur er stórmál vestra hvert bandarískir hermenn eru sendir til að deyja og í þágu hvaða málstaðar. Úkraína er víti til að varast. Bandarískir hagsmunir eru ekki í húfi svo neinu nemi. Afleiðingin er að stuðning við stjórnina í Kænugarði er erfitt að selja bandarískum almenningi.

Úkraínustefnan, sem Biden sat uppi með og varð honum myllusteinn um háls, er komin í þrot. Næsta verkefni er að koma á friði. Í framhaldi að smíða bandaríska utanríkisstefnu, og þá um leið vestræna, sem ekki gerir ráð fyrir landvinningum og temur sér hóf í stað hroka. Verðugt verkefni næsta Bandaríkjaforseta.

Skildu eftir skilaboð