Páll Vilhjálmsson skrifar:
Helsti eigandi Heimildarinnar, áður Kjarnans, Vilhjálmur Þorsteinsson auðmaður, fjármagnaði tvo starfsmenn sína, Þórð Snæ ritstjóra og Arnar Þór blaðamann, til að stefna tilfallandi bloggara fyrir að skrifa um byrlunar og símastuldsmálið.
Auðmaðurinn og blaðamennirnir höfðu betur í héraðsdómi en töpuðu í landsrétti, sjá blogg og frétt. Dóminn í heild má lesa hér.
Vilhjálmur skrifar Facebook-færslu um málið og telur að lýðræðið hafi tapað með sýknudómi yfir tilfallandi. Það eru öfugmæli sem þarf að leiðrétta.
Í dómnum eru blaðamennirnir tveir, Þórður Snær og Arnar Þór, meðhöndlaðir sem opinberar persónur. Þeir sem koma fram á opinberum vettvangi, t.d. í fjölmiðlum, og segja sína meiningu frammi fyrir alþjóð eru sjálfkrafa opinberar persónur. Gildir einu hvort um er að ræða fréttir, leiðara eða skoðanapistla. Blaðamenn eru í valdastöðu, fara með dagskrárvald opinberrar umræðu og hafa meira að segja en aðrar starfsstéttir hvaða tíðindi eru sögð almenningi.
Lykilefnisgrein í færslu Vilhjálms er eftirfarandi:
Þegar hugtakinu "opinber persóna" er hins vegar snúið yfir á blaðamenn í störfum sínum, og vernd þeirra minnkuð á þeim forsendum, þá er verið að beita þessu öfugt: gegn lýðræðinu en ekki til verndar því.
Vilhjálmur leggur að jöfnu blaðamenn og lýðræði. Það er fásinna. Engin starfsstétt, hvort heldur blaðamenn, stjórnmálamenn eða lögmenn, svo dæmi séu tekin, er verðugri en önnur í lýðræðisríki. Lýðræði er fyrirkomulag jafnræðis þegnanna. Meginregla er að borgararnir eigi jafnan rétt fyrir lögum.
Í dómsmálinu sem Vilhjálmur fjárfesti í og tapaði var tekist á um hvort tilfallandi bloggara væri heimilt að tjá sig um byrlunar- og símastuldsmálið og aðild blaðamanna. Í krafti peningavalds sem Vilhjálmur ræður yfir átti að kæfa tjáningarfrelsi bloggara. Það tókst ekki. Lýðræðið hafði betur gegn fjármagnsvaldi Vilhjálms og félaga.