Helga Dögg Sverrisdóttir skrifar:
Formaður grunnskólakennara segir ,,Stormur í vatnsglasi“ um áhyggjur atvinnulífsins og fleirum af stöðu grunnskólabarna og mælinga á skólastarfinu. Samræmd próf barn síns tíma. Ósammála. Samræmd könnunarpróf eru mikilvæg til að skoða stöðu hvers barns á leiðinni út úr grunnskólanum. Ætti eins og var gert að leggja slík próf fyrir reglulega á skólagöngu barns. Löndin í kringum okkur telja það nauðsynlegt og ekki eru þeir með lakara skólakerfi þó það kosti minna. Eins gott að íslenskir nemendur séu ekki í skólum í Lettalandi. Bloggari var í skólaheimsókn þar. Sagt var frá vörðum sem lagðar eru fyrir nemendur á leiðinni í gegnum grunnskólann í formi prófa. Að sjálfsögðu.
Væri skólinn félagsmiðstöð þyrfti ekki próf, hins vegar er verið að tala um menntastofnanir sem eiga að nota sömu mælingar um allt land.
Í skýrslunni um stöðu drengja kemur skýrt fram, kennarar kalla eftir samræmdu mati á landsvísu. Lesið hér.
Margir foreldrar sem hafa búið í sveitarfélögum þar sem einn grunnskóli er hafa sagt við mig, ég áttaði mig ekki á hvað skólinn er lélegur fyrr en ég flutti og barnið mitt fór í annan skóla. Samkvæmt Mjöll og Magnúsi Þór á að halda upplýsingum leyndum fyrir foreldrum um slíka skóla. Af hverju? Hver er tilgangurinn? Hvernig eiga foreldrar að halda eftirlitsskyldu sinni uppi ef þau hafa engan samanburð og vilja þrýsta á skólann að gera betur. Engin skömm að því.
Stundum dettur bloggara í hug, þegar umræðan er á þann veg sem forysta KÍ talar, að pakka eigi börnum inn í bómull, þau mega ekki takast á við neinar áskoranir og hvað þá líða illa af því þau stóðu sig ekki nógu vel. Börnum sem gengur mjög vel í skólanum er haldið niðri til að allir séu meðal-Jóninn.
Vanlíðan er hluti af lífinu. Gleði er hluti af lífinu. Velgengni er hluti af lífinu. Prófkvíði er hluti af lífinu, þó hann hrjái ekki alla. Að bæta sig er hluti af lífinu. Að sigra og tapa er hluti af lífinu. Grunnskólinn er menntastofnun sem á að gera mælanlegar kröfur á nemendur, svo taka nemendur og foreldrar á tilfinningunum þegar á þarf að halda. Í kjölfar einkunnargjafar úr samræmdu prófi er spurningin til nemanda og foreldra, vill nemandi bæta sig eða hjakka í sama farinu.
Að formaður Félags grunnskólakenna tali í þá átt sem hún gerir í þessari grein er bæði henni og stéttinni til skammar.
Tek undir með þeim sem segja „…misskilning að halda að skipulag og gæði grunnskóla sé einkamál kennara, embættismanna og sérfræðinga.“ Hildur Björnsdóttir segir á snáldursíðu sinni ,, Það er mikilvægt að áfram verði samræmd könnunarpróf í grunnskólum landsins. Jafnframt þarf að tryggja skólastjórnendum aðgang að sundurgreindum niðurstöðum úr PISA könnunum. Reynslan hefur sýnt að samræmdar mælingar eru mikilvæg tól til umbóta og að heilbrigð samkeppni er drifkraftur framfara.“
Foreldrar eiga meira erindi inn í grunnskólann en nokkru sinni fyrr. Hugmyndafræði, alls konar, hefur tekið meira af kennslu kennara en það sem í raun skiptir mestu máli. Hér að neðan má sjá kennsluglæru kennara í 9. bekk sem foreldrar þurfa virkilega að taka sig af, íslensk tunga afbökun í nafni hugmyndafræðar.
Mikið væri gaman ef Íslendingar gætu státað sig af svona skjólastjóra. Svo ég tali nú ekki um kennaraforystuna.
Höfundur er kennari.