Páll Vilhjálmsson skrifar:
Tjáningarfrelsið er hornsteinn mannréttinda. Réttur manna að tjá hug sinn er meiri og mikilvægari en meintur réttur til að verða ekki fyrir móðgun. Í viðtengdri frétt segir frá tveim aðilum, Semu Erlu og Samtökunum 78, sem móðguðust vegna ummæla Helga Magnúsar vararíkissaksóknara.
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra er með á sínu borði tilmæli yfirmanns Helga Magnúsar að honum verði víkið frá störfum fyrir ummæli sem aðilar út í bæ tóku til sín sem móðgun. Öðrum, tilfallandi til dæmis, fannst Helgi Magnús mæla af skynsemi almælt tíðindi; að sumir hælisleitendur eru afbrotamenn og að einhverjir hælisleitendur ljúga upp á sig eiginleikum, s.s. samkynhneigð, til að fá landvist og velferð.
Ráðherra ætti að hafa í huga við úrlausn málsins að embættisferill Helga Magnúsar er ekki einn undir heldur meginréttur allra landsmanna, að tjá hug sinn.
Guðrún ráðherra sendi afar slæm skilaboð út í þjóðfélagið ef hún tæki mark á kæru Semu Erlu og tilmælum Sigríðar ríkissaksóknara og leysti Helga Magnús frá störfum. Frjáls orðræða er ekki sérviska heldur undirstaða siðmenntaðs samfélags.