Björn Bjarnason skrifar:
Hvað sem líður málinu í Namibíu varð Kveiks-þátturinn upphaf sorglegs kafla í sögu íslenskrar blaðamennsku sem enn er ólokið.
Mál sem hófst í Kveik ríkisútvarpsins í nóvember 2019 og snerist um spillingu á æðstu stöðum í Nambíu við úthlutun veiðileyfa hefur dregið dilk á eftir sér.
Hér er málið kennt við Samherja, útgerðar- og fiskvinnslufélagið á Akureyri. Fyrrverandi starfsmaður þess í Namibíu, Jóhannes Stefánsson, var uppljóstrari í málinu með aðstoð Kristins Hrafnssonar, ritstjóra WikiLeaks.
Á þessum tíma var Julian Assange, stofnandi WikiLeaks, í höndum breskra yfirvalda sem fjölluðu um framsalskröfu frá Bandaríkjastjórn sem taldi Assange ekki hafa stundað blaðamennsku heldur njósnir með starfsemi sinni. Assange var látinn laus fyrir nokkru eftir að hafa játað á sig njósnir og býr nú frjáls í heimalandi sínu Ástralíu.
Málaferli standa enn yfir í Namibíu, þar tala menn um Fishrot-hneykslið. Fyrrverandi dómsmálaráðherra Namibíu, sem sóttur er til saka í málinu og hefur setið í haldi síðan í nóvember 2019, fullyrti 26. júlí 2024 að ákæra gegn sér sýndi að um samsæri í pólitískum tilgangi væri að ræða. Vegna málsins er valdabarátta innan ráðandi flokks Namibíu, SWAPO.
Héraðssaksóknari fór héðan með hóp manna til Namibíu og kannaði hvort refsiverð tenging væri við Samherja vegna Fishrot-hneykslisins. Hér dregst von úr viti að komast að niðurstöðu um það eins og um undarlegasta anga málsins. Hann snýr að ásökunum á hendur þáv. starfsmönnum ríkisútvarpsins og aðstandendum Kveiks um að þeir hafi átt hlut að því að stolið var farsíma af Páli Steingrímssyni, þáv. skipstjóra hjá Samherja, á meðan hann var á milli heims og helju vegna byrlunar. Gögn af símanum hafi síðan verið afrituð í því skyni að styrkja málstað þeirra sem stóðu að málatilbúnaðinum í Kveik í nóvember 2019.
Eitt er víst að rannsókn þessa símastuldar- og byrlunarmáls hjá ákærudeild embættis lögreglustjórans á Norðurlandi eystra hefur varpað dökkum skugga á hóp blaðamanna sem bæði störfuðu á fréttastofu ríkisútvarpsins og utan hennar. Þessi hópur náði undirtökum í Blaðamannafélagi Íslands (BÍ) og hefur verðlaunað ýmsa sem komu að Kveiks-þættinum í nóvember 2019. Þá beitti hópurinn sér fyrir brottvísun Hjálmars Jónssonar, formanns og framkvæmdastjóra BÍ til 30 ára. Án haldbærra raka var hann sakaður um að hafa ekki haldið rétt á fjármálum BÍ.
Athyglin beinist nú enn á ný að þætti blaðamanna í þessu máli. Þórður Snær Júlíusson, stofnandi fréttavefsíðunnar Kjarnans fyrir rúmum 11 árum, sem varð síðan hluti Heimildarinnar með samruna við Stundina í lok árs 2022, hverfur nú fyrirvaralaust frá ritstjórn Heimildarinnar.
Þórður skýrði frá ákvörðun sinni einhliða á Facebook 31. júlí þegar hann hafði í um 900 daga verið með stöðu sakbornings í fyrrgreindri rannsókn embættis lögreglunnar á Norðurlandi eystra. Af hálfu Heimildarinnar hefur hvorki heyrst hósti né stuna vegna þessarar breytingar á yfirstjórn hennar,
Hvað sem líður málinu í Namibíu varð Kveiks-þátturinn upphaf sorglegs kafla í sögu íslenskrar blaðamennsku sem enn er ólokið. Líklega verður framferði þeirra sem hlut eiga að máli ekki kennt við blaðamennsku þegar upp er staðið frekar en starfsemi Julians Assange á sínum tíma.